Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 13:02:13 (5363)

2002-02-28 13:02:13# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[13:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í sjálfu sér má segja að þetta sé afar jákvætt innlegg frá hæstv. ráðherra. Hins vegar má ekki draga úr því að hér er hætta á ferðum sem við þurfum að vera meðvituð um. Hér eru gryfjur sem við þurfum að girða fyrir og við þurfum að vera viss um að við dettum ekki ofan í. Þess vegna ítreka ég það sem ég hef sagt, það verður auðvitað að sjá til þess að starf fagráðanna og Rannsóknarráðsins sé hafið yfir allan vafa þannig að fólk þurfi ekki að sitja undir þeirri gagnrýni að um pólitísk tengsl eða hagsmunagæslu sé að ræða sem verði of sterk og stjórni styrkveitingum í vísindasjóðina. Auðvitað verður að ræða það á Alþingi og taka af, eins og ég segi, allan vafa til þess að vísindastefna ríkisstjórnarinnar geti notið fyllsta trausts, bæði hjá þjóðinni og innan vísindasamfélagsins.