Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:34:22 (5374)

2002-02-28 14:34:22# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er kannski ekki hefðbundið og ekki mikil kurteisi af mér að taka upp þráðinn þar sem hann slitnaði í andsvörum okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Ég tel að það sem greinir á milli okkar, sé að ég er þeirrar skoðunar að markaðurinn gegni miklu hlutverki við að búa til nýja þekkingu, ekki bara að setja hana í hagnýtt form heldur held ég að starfsemi markaðarins og sú vísindalega viðleitni sem hann er knúinn til að sýna í krafti hagnaðarvonar leiði oft af sér nýja þekkingu, stundum þekkingu sem segja má að falli með vissum hætti í sama pott og sú sem verður til í krafti grunnrannsókna. Oft og tíðum er þar um að ræða þekkingu sem ekki nýtist fyrr en eftir dúk og disk en hún nýtist. Öll þekking nýtist einhvern tíma.

Ég tel að það sem við erum að ræða um núna sé mjög mikilvægt mál. Verðugra hlutskipti finna stjórnmálamenn vart en einmitt að velta fyrir sér heppilegri og farsælli stefnu á sviði mennta og vísinda. Það er athyglisvert, ef maður skyggnist aftur í tímann, að sjálfstæðisbarátta Íslendinga hafði framan af síðustu öld og jafnvel þarsíðustu, vissan vísindalegan undirtón. Jón forseti, sem við höfum steypt í eir hér úti á Austurvelli, skrifaði lítinn bækling 1848 um nýsköpun í sjávarútvegi. Hann lagði þar áherslu á nauðsyn þess að efla vísindalegar rannsóknir vegna þess að þær ásamt verslunarfrelsinu væru undirstaða framfara þjóðar okkar. Það er merkilegt að skoða sögu okkar á síðustu öld og verða þess áskynja að Íslendingar hófu mjög snemma að byggja upp kerfi til að treysta grundvöll þekkingar sem menn notuðu til nýsköpunar í atvinnuvegunum. Ég nefni nöfn frumherja eins og fiskifræðinganna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar. Ég nefni Björn Sigurðsson á Keldum, af því að ég veit að sú rannsóknastöð stendur hjarta hv. þm. nær.

Við erum að velta fyrir okkur heppilegri pólitík til að laða fram, í krafti þess fjármagns sem við höfum yfir að ráða, sem mesta þekkingu. Þessi frv. sem við erum að ræða eru allrar athygli verð. Ég sagði áðan að ég hefði ekki mótað mér endanlega skoðun á þeim. Ég áskil mér rétt til þess að leggjast gegn þeim eða vera þeim samþykkur eftir að hafa skoðað málið betur og séð þau rök sem liggja þessum frumvörpum til grundvallar. Í stórum dráttum, herra forseti, sýnist mér að reyni maður að draga saman það sem fram kemur í þessum frv. þá sé það að gerbreyta uppbyggingu vísindarannsókna á Íslandi.

Hið nýja kerfi sem lagt er til er þannig að gert er ráð fyrir því að hinu endanlega valdi um stefnumótun sé í reynd komið fyrir í höndum forsrh. Segja má að á öld valddreifingarinnar stríði þessi viðleitni gegn straumnum. Sumir kynnu að kalla þetta miðstýringaráráttu. Undir forsrh. eða með honum sitja nokkrir ráðherrar sem eiga að koma að mótun stefnu um vísindi og rannsóknir. Undir þeim er síðan 14 manna Vísinda- og tækniráð. Undir því eru síðan tvær nefndir, vísindanefnd sem forsrh. skipar eftir tilnefningum menntmrh. og síðan er sérstök tækninefnd, einnig sjö manna, sem hæstv. iðnrh. kemur að með sama hætti.

Þá er eftir fjármögnunarþátturinn. Nýbreytnin sem þarna má segja að komi fram varðandi fjármögnunina er að undir iðnrh. verður til sérstakur Tækniþróunarsjóður en undir menntmrh. verða til tveir sjóðir, Rannsóknasjóður og Tækjasjóður. Áherslan á fjármögnun verkefna, sýnist mér af lestri þessara frv., mun liggja nokkuð þungt á það sem kalla má hagnýtar rannsóknir. Af því leiddi sú fyrirspurn sem ég varpaði til hæstv. menntmrh. í upphafi þessarar umræðu: Með hvaða hætti á að tryggja það að grunnrannsóknir verði ekki út undan? Ég segi það hreinskilnislega að ég óttast að svo verði. Það er svo mikil áhersla innan rannsóknageirans í dag að framkalla þekkingu sem hægt er að nýta svo að segja strax að mér sýnist vægi grunnrannsókna alltaf að minnka. Þeir sem stunda hreinar grunnrannsóknir eiga alltaf örðugra með að verða sér úti um fjármagn.

Sérstök áhersla er lögð á það, í þeim frv. sem hér liggja fyrir, að styrkja einstaklinga án þess að taka sérstaklega tillit til þeirra stofnana sem þeir starfa við. Það kann að vera að með þeim hætti megi fremur hjálpa þeim einstaklingum sem eru að berjast í grunnrannsóknum en ég er ekki sannfærður um það. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða rækilega í nefnd.

Ég er eins og hér hefur fram komið alfarið þeirrar skoðunar að þjóð okkar verði að verja umtalsverðum peningum til grunnrannsókna vegna þess að þær eru stökkpallurinn sem við notum til þess að kasta okkur áfram inn í iðu hinnar hagnýtu tækniþróunar. Ég ætla á þessu stigi ekki að gera miklar athugasemdir við þá sjóði sem eru undir menntmrh. Þó vildi ég spyrja hæstv. menntmrh. hvernig þeir styðja betur en hið fyrra fyrirkomulag það yfirlýsta markmið sem hefur komið fram í ræðum ráðherrans og í andsvari áðan, að efla unga vísindamenn. Ég tel í fyrsta lagi nauðsynlegt að skapa umhverfi hér á landi sem kallar unga íslenska vísindamenn heim. Í öðru lagi finnst mér nauðsynlegt að hvetja þá sem eru hér við nám og rannsóknarstörf og hafa ekki hleypt heimdraganum til að kasta sér út í frekari rannsóknir innan lands. Þar, herra forseti, er verið að stytta ferilinn á milli uppgötvana og hagnýtingar þeirra í framleiðslunni. Hvernig stuðlar það fyrirkomulag sem hér er lagt til að því að fjölga og efla unga íslenska vísindamenn?

Ég verð síðan, herra forseti, að gera nokkrar athugasemdir við frv. sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fram varðandi stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Þar er lagt til að á vegum Iðntæknistofnunar verði rekin sérstök nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Nú er það svo, herra forseti, að ég er því hlynntur að fyrirtæki af þessum toga verði studd. Minn flokkur, Samfylkingin, hefur lagt sérstaka áherslu á að ríkisstjórnir beiti sér hverju sinni fyrir aðgerðum til að styrkja þau. Við höfum t.d. lagt fram hugmyndir í þinginu, herra forseti, í umræðum um skattalagabreytingar, um að stjórnvöld taki upp sérstakt fyrirkomulag á skattgreiðslum sem ívilni litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Það kom mér á óvart þegar helstu skattasérfræðingar þingsins töldu að þar væri ókleift fjall við að eiga, ekki væri hægt að finna fyrirkomulag sem leyfði og gerði tæknilega mögulegt að ívilna litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ég nefni þetta hér, herra forseti, vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem við í Samfylkingunni höfum síðan viðað að okkur fara fjölmörg lönd þessa leið. Eitt þeirra er t.d. Írland. Ef ég man rétt, herra forseti, þá er að finna þriggja laga kerfi í Írlandi þar sem örsmá fyrirtæki greiða mjög lítinn skatt og síðan stighækkar hann. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að bera okkur saman við Íra þá er hægt að fara skattalagaleiðina til að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki.

Hlutverk nýsköpunarmiðstöðvarinnar virðist mér í reynd að taka við Impru, sem var verkefni innan Iðntæknistofnunar. Þá vil ég, herra forseti, koma að því sem ég drap á í andsvari mínu við hæstv. ráðherra menntamála fyrr í dag. Iðntæknistofnun er ágæt stofnun. Hún hefur lengi verið til. Stundum hefur mér ekki þótt tilgangur hennar mjög augljós. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort ekki sé nauðsynlegt að ráðast í róttæka uppstokkun á rannsóknastofnunum íslenska ríkisins. Sé svo, þá er alveg ljóst að Iðntæknistofnun er ein þeirra stofnana sem hlýtur að leggjast í það púkk. Ég hefði talið, herra forseti, áður en menn fara þessa leið, sem mér sýnist að leiði af því að Iðntæknistofnun breytist í einhvers konar nýsköpunarmiðstöð, þá hefðu menn átt að skoða þetta betur.

Innan Iðntæknistofnunar eru ýmsir geirar sem færa má rök fyrir að eigi heima annars staðar. Ég tel að þessa stofnun, hluta af Orkustofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og mögulega hluta af fleiri íslenskum vísindastofnunum eigi að sameina. Ég held að menn eigi að skoða með róttækum hætti tilgang slíkrar sameinaðrar stofnunar. Sum af þeim verkefnum sem þarna eru unnin væri hægt að flytja út á markaðinn. Ég er þeirrar skoðunar og ég skoðaði þetta talsvert fyrr á árum og komst að þessari niðurstöðu.

[14:45]

Ég spurði hæstv. menntmrh. áðan hvort hann teldi ekki, í framhaldi af þeirri yfirlýsingu sem hæstv. forsrh. gaf hér um að fyrir lok þessa kjörtímabils kæmu fram tillögur um breytta verkaskiptingu Stjórnarráðsins, að einnig ætti að fara í uppstokkun á rannsóknastofnunum. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða hugmyndir hefur hann gert sér um uppstokkun á hinum opinberu rannsóknastofnunum íslenska ríkisins?

Þegar ég skoða Tækniþróunarsjóðinn sem lagt er til að stofnist af samþykkt þessa frv. hæstv. iðnrh. kemur í ljós að hvergi er talað um fjárframlög til hans. Hann er nýr sjóður og hlutverk hans er reifað með nokkrum fögrum orðum. En það er tekið fram í fylgiskjali frá fjmrn. að ekki sé gert ráð fyrir neinu sérstöku framlagi sem eigi að fylgja þessu. Þar eru reifaðir fyrri styrkir eða fyrri smásjóðir sem er að finna hér og hvar.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. iðnrh.: Er það svo að hinum nýja Tækniþróunarsjóði fylgi ekki neitt nýtt framlag? Mig langar í annan stað að spyrja hæstv. iðnrh.: Hversu mikið fjármagn leggur hún af stað upp með fyrir sjóðinn? Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því af lestri greinargerðar frv. hversu miklir þessir litlu sjóðir og peningar sem áður var veitt til ýmissa verkefni undir iðn.- og viðskrn. og eftir atvikum Iðntæknistofnun, eru þegar þeir eru allir lagðir saman.

Herra forseti. Hverju vilja menn helst ná fram með þessu breytta skipulagi? Vel kann að vera að það sé, svo maður sletti erlendu orði, ákveðinn ,,prestige`` fyrir forsrh. að hafa þessa tauma í sínum höndum. Það kann líka að vera hægt að rökstyðja þessa skipan mála með því að í nútímaþjóðfélagi má ekki rekja nema u.þ.b. helming verðmætasköpunarinnar beint til fastra fjármuna og vinnuafls, náttúruauðlinda eða hinna hefðbundnu framleiðsluþátta hagkerfisins. Hinn helmingurinn, raunar rífur helmingur, sprettur fram af nýrri þekkingu. Þar með má halda því fram að rannsóknir séu orðnar hagstjórnartæki. Það er ein röksemd sem hægt er að nota til þess að styðja þessa skipan mála.

Ég tek hins vegar eftir því að í þeim greinargerðum sem frumvörpunum fylgja er ekki orð um það. Ég fann heldur ekki þann skilning í máli hæstv. menntmrh. eða forsrh. er þeir mæltu fyrir þessum frv. að þeir litu svo á að eðlilegt væri að rannsóknir lytu endanlegu valdi hæstv. forsrh. sökum þess að þær væru á nýjum tímum tæki til þess að stýra framvindu efnahagslífsins. Þær eru í reynd tæki til þess að skjóta burðugri stoðum undir hagvöxt. Það eru rök, finnst mér.

Mér sýnist samt að ástæðan fyrir þessari tillögu sé fyrst og fremst von þeirra sem hafa afl og burði í vísindaheiminum um að nánari tengsl stefnumótunar á sviði rannsókna og fjárveitingavaldsins leiði til þess að auðveldara verði að draga fjármagn til rannsókna. Þó að hæstv. menntmrh. tali oft um að framlög til rannsókna- og þróunarmála hafi aukist mjög þá held ég að það sé umdeilanlegt. Það kom fram áðan að ef ráðstöfunarfé Vísindasjóðs er skipt niður í fjölda kostaðra mannára þá hefur þeim fækkað frá dögum þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í úr 90 mannárum til svona tæplega 60, 55--60 mannára, svo að ég leyfi mér að lesa hér út úr grafi sem ég hef frá Rannís. Samkvæmt því, herra forseti, hefur nú heldur sigið á ógæfuhliðina.

Stundum er vísað til þess að Finnar hafi náð mjög miklum árangri með því að fara þá leið sem hér er lögð til. Ég hjó eftir því að í ræðu sem rakin var í fjölmiðlum í apríl á síðasta ári taldi hæstv. menntmrh. að tillögur sínar byggðu á því sem hann taldi vera skipulag Finna í þessum málum. Það er rétt að Finnar hafa svipaða ráðherranefnd og hér er lögð til að móti stefnu í vísindum og tækni. Þeir hafa hins vegar sér til hliðar finnsku akademíuna sem hefur starfað í meira en 100 ár og undir henni eru a.m.k. fjögur rannsóknaráð. Þeir hafa líka ýmsa sjóði sem veita styrki til rannsókna og þróunar.

Það sem skiptir máli í Finnlandi er að fjárveitingar til rannsókna- og þróunarverkefna hafa árum saman aukist um 15%. Nú ber ekki að lasta það, herra forseti, að vel kann að vera að þau nánu tengsl sem í hinu finnska líkani eru á milli stjórnvalda, vísindamanna og atvinnulífsins hafi leitt til þess að opinberir fjármunir til vísindarannsókna hafi eflst sem þessu nemur. Þetta er eitt af því sem við hljótum að hafa í huga sem viljum treysta straum fjármagns úr opinberum sjóðum til rannsókna.

Herra forseti. Ég tek eftir að hér er rætt um rannsóknarnám og ég er eindreginn stuðningsmaður þess að rannsóknarnám við íslenska háskóla verði eflt. Eins og ég sagði áðan þá styttir það leiðina mjög á milli framleiðslu nýrrar þekkingar og hagnýtingar. Samkeppnishæfni atvinnulífs og samfélags í dag helgast mjög af því að leiðin á milli framleiðslu á þekkingu og síðan hagnýtingar hennar í einhvers konar framleiðslu verði eins stutt og hægt er. Ég er stuðningsmaður þess og því tel ég nauðsynlegt að styrkja rannsóknartengt framhaldsnám, meistarapróf og doktorsnám. Það er mín reynsla sem gamals vísindamanns og hafandi starfað um skeið með fjölmörgum vísindamönnum að þessi partur hinnar vísindalegu ævi sé sá frjóasti. Fjölmargir heimsþekktir vísindamenn, sem alla ævi sína eru að framleiða nýja þekkingu sem hægt er að nýta með ýmsum hætti eru að vinna úr hugmyndum sem verða til á þessu frjóasta skeiði háskólamannsins.

Þess vegna skiptir miklu máli að við höldum fólkinu í landinu á meðan það er að framleiða þessa þekkingu í staðinn fyrir að það hverfi til útlanda og komi e.t.v. ekki aftur eða skilji obbann af sínum góðu hugmyndum eftir. Þetta er mjög jákvætt og við þurfum að gera það sem hægt er til þess að styrkja þetta rannsóknartengda nám. Farið er fögrum orðum um það hér í frv. en ekkert er talað um að það eigi að efla fjárveitingar til þess.

Að lokum, herra forseti. Þrátt fyrir áherslu mína á að stytta ferlið á milli framleiðsluþekkingar og hagnýtingar hennar verð ég að leggja endanlega í máli mínu áherslu á að það sem skiptir ekki síður máli er að við gleymum ekki grunnrannsóknunum.