Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:12:14 (5380)

2002-02-28 15:12:14# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Tvennt lagði ég áherslu á í ýmsum ræðum mínum um þetta frv. hér fyrr í dag. Í fyrsta lagi að fyrirsjáanlegur skortur væri á hámenntuðum ungum vísindamönnum í tilteknum greinum raunvísinda sem gæti staðið þróun atvinnulífsins á vissum sviðum fyrir þrifum.

Í öðru lagi lagði ég áherslu á að nauðsynlegt væri að reyna að stytta tímann frá framleiðslu þekkingar yfir í umbreytingu hennar sem afurðar á markaði. Og þá langar mig, herra forseti, að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji ekki að hægt væri að ráða einhverja bót á hvoru tveggja með því t.d. að reyna að laða fyrirtæki eins og Íslenska erfðagreiningu til þess að ráða unga vísindamenn sem þau fá til að sinna ákveðnum rannsóknum sem gagnist þeim til meistaraprófs og doktorsnáms. Nú er ég sannfærður um að slíkt prógramm er að einhverju leyti í gangi undir forsjá menntmrn. og í samvinnu við slík fyrirtæki.

Með því hins vegar að veita þeim fyrirtækjum skattalegar ívilnanir þá hlýtur að vera hægt að örva þau til þess að ráða ungt fólk til starfa á tilgreindum sviðum. Það er mín reynsla að ekkert vinnuafl á sviði vísindanna er jafnódýrt og er jafnframsækið og framleiðið og einmitt ungir vísindmenn sem eru búnir með fyrsta hluta háskólanáms síns og eru að hefja rannsóknarnám. Það er frjóasta skeið ævinnar og það yrði öllum til hagsbóta, íslenska ríkinu, viðkomandi fyrirtæki, ég tala nú ekki um þeim sjálfum og jafnvel hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem sendir mér ýmis svipbrigði undir þessari framsæknu ræðu.