Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:23:33 (5385)

2002-02-28 15:23:33# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er í öllum atriðum ósammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Mér finnst viðhorf hans vera furðu forstokkað og afturhaldssamt að ekki sé meira sagt að því er varðar viðhorf til atvinnulífs í upphafi 21. aldar. Ég get ekki fallist á að þeir peningar sem hafa farið í Íslenska erfðagreiningu séu teknir út úr íslensku efnahagskerfi, síður en svo. Ég tel að með því sé verið að taka peninga og verja þeim tiltölulega vel til að byggja upp nýja tegund af atvinnulífi á Íslandi. Fyrir tilstilli þess fyrirtækis, hvað sem okkur kann að þykja um einkaleyfi þess og tilurð, hefur dregist til Íslands sennilega á þriðja hundrað hámenntaðra ungra Íslendinga. Ég hygg, herra forseti --- af því að hv. þm. er yfirleitt á móti álverum --- að Íslensk erfðagreining sé ígildi u.þ.b. eins og hálfs, jafnvel tveggja, meðalálvera. Það er heldur betur orkustöð. Þarna er verið að framleiða nýja þekkingu, þekkingu sem hv. þm. sagði í fyrri ræðum sínum að beindust aðallega að því að lækna sjúkdóma einhverra tiltölulega vel stæðra Vesturlandabúa. Ég er algjörlega ósammála því líka.

Í grunninn var hv. þm. að mótmæla því sem ég sagði um að það ætti að beita íslenska skattkerfinu, í fyrsta lagi til að stytta ferilinn milli framleiðsluþekkingar og hagnýtingar hennar og í öðru lagi til að bæta úr fyrirsjáanlegum skorti á hámenntuðum Íslendingum. Ég tel það mjög jákvætt skref ef menn stíga einhver spor í þá átt. Ég held að rétt sé að beita skattalegum ívilnunum til að lyfta undir nýjar greinar í atvinnulífinu. Það hef ég margsinnis sagt og Samfylkingin líka. Í engri grein í heiminum er í dag jafnstutt á milli hagnýtingar þekkingar og framleiðslu hennar eins og í erfðafræði og erfðagreiningartækni. Við eigum að notfæra okkur það og ríða þennan öldufald til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.