Fríverslunarsamtök Evrópu 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 19:02:59 (5424)

2002-02-28 19:02:59# 127. lþ. 85.15 fundur 544. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2001# skýrsl, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[19:02]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2001. Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, hefur starfað frá árinu 1977 og hefur það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefndinni. Umsvif og starfsemi nefndarinnar jukust til muna þegar viðræður hófust um Evrópska efnahagssvæðið, EES, árið 1989 og mikilvægi nefndarinnar jókst enn þegar EES-samningurinn tók gildi hinn 1. janúar árið 1994. Með gildistöku samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í þau fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þau þrjú aðildarríki EFTA sem heyra undir EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-hluta nefndarinnar eingöngu eru tekin fyrir.

Eins og þing annarra aðildarríkja á Alþingi fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA. Nefndin heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári auk þess sem hún fundar tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA.

Árið 2001, en þessi skýrsla tekur til þess árs, skipuðu Íslandsdeildina Vilhjálmur Egilsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Kristinn H. Gunnarsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru hv. þingmenn Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson. Fulltrúi Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Jóhanna Helga Halldórsdóttir var ritari Íslandsdeildar til 31. mars, Belinda Theriault gegndi starfinu til 8. ágúst en þá tók Guðfríður Lilja Grétarsdóttir við. Fyrir hönd þingmanna nefndarinnar þakka ég starfsmönnum nefndarinnar fyrir afar vel unnin störf.

Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu. Þingmannanefnd EES hélt tvo fundi og þingmannanefnd EFTA þrjá auk tveggja funda með ráðherraráði EFTA. Þingmannanefnd EFTA hélt einnig fjölsótta ráðstefnu um stækkun ESB. Þá má geta þess að þingmannanefnd EFTA átti sérstakan fund með ráðgjafanefnd EFTA, en samstarf nefndanna hefur í seinni tíð verið að styrkjast. Vilhjálmur Egilsson gegndi formennsku bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES á árinu og í heild var Íslandsdeildin nokkuð virk, held ég að sé óhætt að segja, og létu fulltrúar Íslandsdeildarinnar að sér kveða á þessum vettvangi.

Meðal þeirra málefna sem nefndin beindi sjónum að var stækkun Evrópusambandsins, áhrif EFTA/EES á ákvarðanatöku og nefndavinnu. Verulega var fjallað um endurskoðun EES-samningsins enda hafa spunnist af því umræður, m.a. á Alþingi. Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA, þ.e. ESA, kom einnig til umfjöllunar og rætt var um þróun fríverslunarsamninga.

Í þessari skýrslu sem hefur verið dreift á þinginu er að finna frásagnir af fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu, ítarlegar frásagnir af þessum fundum og, herra forseti, ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlegar í þær nema fram komi sérstök beiðni af hálfu hæstv. forseta þingsins þar að lútandi. En þar sem hún kemur ekki fram læt ég máli mínu lokið.