Umræða um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:15:19 (5434)

2002-03-04 15:15:19# 127. lþ. 86.97 fundur 372#B umræða um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í dag mun fara fram umræða um stjórnkerfi fiskveiða, eitt mesta hita- og átakamál í íslenskri efnahags- og stjórnmálaumræðu um langt árabil. Það er ekki að undra því að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir einstaklinga, fyrirtæki og byggðarlög. Í athugasemdum með frv. ríkisstjórnarinnar, sem nú verður tekið á dagskrá, er vísað í störf nefndar sem ríkisstjórn fól að undirbúa þetta frv. Hún átti að ná sem víðtækastri sátt landsmanna um fiskveiðistjórnarkerfið eins og segir í erindisbréfi til nefndarinnar.

Þetta tókst nefndinni því miður ekki. Hún margklofnaði og komu fram nefndarálit, tvö frá ríkisstjórnarmeirihlutanum og tvö frá stjórnarandstöðu. Einum flokki, Frjálslynda flokknum, hafði verið haldið utan við nefndina.

Nú gerist það, herra forseti, að stjórnarandstaðan sameinast í þáltill. um að enn verði leitað sátta sem byggist á uppstokkun kerfisins í þeim anda sem margir stjórnarsinnar á Alþingi og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar virðist vilja.

Herra forseti. Ég hefði talið eðlilegt að þótt þingsköp bjóði ekki upp á að þessi mál, frv. og þáltill., verði rædd í einu hefðu þau bæði átt að vera á dagskrá í dag. Hér er um að ræða mismunandi nálgun til að leysa þennan sama vanda.