Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 20:32:44 (5497)

2002-03-04 20:32:44# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[20:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að gera þurfi ýmsar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. En fiskveiðistjórnarkerfi þurfum við að hafa. Við þurfum stýra sókninni á fiskimiðin.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talar um nauðsyn þess að skapa skilyrði fyrir því að renta skapist í sjávarútvegi. Hún er fyrir hendi. Sýnt hefur verið fram á að milljarðar króna streyma út úr þessari grein að verulegu leyti inn í fjármagnskerfið í landinu. Við umræðuna í dag hefur því verið haldið fram, m.a. af einum talsmanni stjórnarmeirihlutans sem hefur farið mjög vel í saumana á þessum málum, að ætla megi að um 13 milljarðar séu teknir út sem renta. Tillögur okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ganga út á að láta þá rentu, láta þennan hagnað, streyma til almennings, til sveitarfélaganna og til ríkisins í stað þess að það fari til þeirra útvöldu sem hafa kvótann á sinni hendi, kvótahafanna. Það er því spurningin um að beina fjármagninu í aðra vasa en þá sem þeir streyma í núna með hörmulegum afleiðingum fyrir samfélagið allt.