Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:24:09 (5528)

2002-03-04 22:24:09# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:24]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur gagnrýnt þetta frv. á málefnalegan hátt finnst mér og við erum honum að mörgu leyti sammála um hvernig eigi að innkalla veiðiheimildir. Við höfum hins vegar verið ósammála um hvernig eigi að koma þeim til þeirra sem nota þær. Ég vil segja einu sinni enn um það mál að ég tel að ef úthlutað verður veiðiheimildum til allra Íslendinga með þeim hætti sem hv. þm. leggur til, þá verði það býsna snúið og erfitt í framkvæmd þegar 270--280 þús. kvótaeigendur eru farnir að koma kvóta sínum á markað á hverju einasta ári til þess að hann verði nú veiddur. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann hafi ekkert endurskoðað þessar hugmyndir og hvort hann geti ekki fallist á að þær tillögur sem við hjá Samfylkingunni höfum t.d. verið að leggja fram séu út af fyrir sig miklu framkvæmanlegri og einfaldari en að fara þessa leið, þó ég geti út af fyrir sig skrifað upp á það að afraksturinn af því sem kemur þarna inn, sem mér finnst ekki aðalatriðið í þessu máli, þ.e. hvað útgerðin borgar, heldur finnst mér aðalatriðið, eins og hv. þm. hefur sjálfur sagt, að koma á jafnræði til þess að nýta auðlindina og útgerðin mun síðan borga það sem hún telur sannvirði fyrir að fá að veiða fiskinn og taka þátt í þeim atvinnurekstri.