Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 22:54:22 (5535)

2002-03-04 22:54:22# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[22:54]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það sem stendur í skýrslunni það stendur í skýrslunni. Það stendur í skýrslunni að veiðigjaldið eigi að ákvarðast með hliðsjón af afkomuskilyrðum. Það er fjallað um afkomutenginguna í skýrslunni, svo hv. þm. sé leiðréttur.

Varðandi það sem hv. þm. sagði hins vegar um stjórnarskrána: Af hverju er hann að gera þetta að umtalsefni hérna núna? Hann sagði að fyrst ætti að breyta stjórnarskránni og svo ætti að leggja á gjaldið. Ef þetta er svona auðvelt, í þeirri tímaröð sem hann er að leggja til, af hverju skiptir það einhverju máli í þessari umræðu? Af hverju gerir hann það þegar hv. þm. veit að hæstv. sjútvrh., samkvæmt skiptingu starfa í Stjórnarráðinu, fer ekki með málefni stjórnarskrárinnar? Ef hv. þm. segir réttilega og vitnar í mín orð þar sem ég vitna í skýrsluna, að auðlindanefndin hafi ekki útfært tæknileg atriði --- hann er að vitna til þessarar sérstöku setningar um það að ákveðnum hluta verði skilað inn í pott sem síðan verði boðinn út og þeir sem skili inn í pottinn þeir megi líka bjóða í og hann telur það bara sjálfsagt að sjútvrh. útfæri þetta á tæknilegan hátt --- til hvers þá að útfæra einhver atriði sem ekki skipta nokkru máli og ekki að hafa nokkur áhrif? Ef viðkomandi aðilar vilja ekki láta hlutdeildina af hendi á þennan hátt þá bjóða þeir bara í hana aftur. Þeir eiga hvort sem er að fá greitt fyrir hana í fyrra skiptið og nota bara sömu peningana til að kaupa hana aftur. Þetta höfum við séð og af þessu höfum við reynslu á Kvótaþinginu. Það er einfaldasti hlutur í heiminum að kaupa aftur það sem menn setja inn á svona markaði og ráða því á hvaða verði þeir ná því aftur án þess að einhver annar geti keypt það.

Þannig er hreinn barnaskapur hjá hv. þm. að finna sér eitthvert skjól í þessari hugmynd sem stenst ekki raunveruleikann og skiptir engu máli, herra forseti.