Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:01:39 (5568)

2002-03-05 15:01:39# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sjávarútvegurinn sé atvinnuvegur allra landsmanna, að þjónusta við hann eigi að vera á ábyrgð allrar þjóðarinnar og það sé ekki sanngjarnt að sjávarútvegurinn einn beri beint rekstrarkostnað af einstökum löndunarhöfnum. Eins og verið hefur undanfarin ár er ríkissjóður ábyrgur fyrir stórum þáttum, bæði í stofnkostnaði og eins líka við að tryggja ákveðna jöfnun í gjaldtöku í hinum ýmsu höfnum vítt og breitt um landið, en samkvæmt frv. til hafnalaga sem nú er verið að leggja fram er gert ráð fyrir því að sjávarútvegurinn, þeir sem landa í viðkomandi höfnum, greiði þennan kostnað beint. Það tel ég ekki vera rétta nálgun. Sjálfsagt getur hann greitt einhvern hluta en ekki er sanngjarnt að setja þessa kvöð á sjávarútveginn einan eins og er í mörgum höfnum, að hann einn beri þennan kostnað, nánar til tekið einungis þeir sem þar landa. Í gildi hafa verið lög sem tryggja ákveðinn jöfnuð og þátttöku ríkisins hvað þetta varðar en hafnirnar eru meðal grunnþjónustu viðkomandi byggðarlaga og mikilvægt er að þar sé fullur jöfnuður.

Varðandi veiðileyfagjaldið, virðulegi forseti, er af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs heimild til ákveðinnar tegundar veiðileyfagjalds hluti af heildarstefnu. Það er því mjög erfitt að stökkva inn og segja: Veiðileyfagjald í þessu kerfi sem hæstv. sjútvrh. leggur hér til er ekki með sama hætti og veiðileyfagjald sem verður hluti af einhverri annarri heildstæðri stefnu þannig að það má ekki setja beint samasemmerki þar á milli.