Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:15:13 (5575)

2002-03-05 15:15:13# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það hefur komið fram við þessa umræðu að frv. sem við ræðum nú hróflar í engu við því kerfi sem nú er við lýði. Með því eru kostnaðargreiðslur útgerðarinnar auknar lítillega og hæstv. ráðherra hefur kosið að kalla það veiðigjald. Ekki er farið fram á að útgerðin greiði fyrir aðgang að auðlindinni, herra forseti, og það kerfi verður áfram við lýði að þeir sem kaupa sér veiðiheimildir þurfa að leita á náðir þeirra sem ríkið afhendir þær án endurgjalds. Þetta liggur fyrir.

En af því að hér hefur verið rætt dálítið um þessi gjöld ætla ég, herra forseti, að fara aðeins yfir það. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessari umræðu. Ekki síst er það nauðsynlegt vegna þess að í grg. með frv. segir, með leyfi forseta, eftir að búið er að fjalla um það hvernig ákveðið var að einfalda gjöldin frá því sem endurskoðunarnefndin hafði lagt til:

,,Þrátt fyrir það var við ákvörðun og útfærslu gjaldsins í frumvarpinu horft til þess og við það miðað að útgerð stæði undir kostnaði sem ríkið hefur af nýtingu auðlindarinnar.``

Það er út frá þessu, herra forseti, sem ég vil leggja í seinni ræðu minni.

Við höfum talað um kostnaðargjöldin. Ég hef haldið því fram og rökstutt að þeir rúmu 2 milljarðar sem þetta gjald getur hæst orðið á góðum degi --- munum að það getur líka orðið til muna lægra --- dekkar ekki nema hluta þess kostnaðar sem menn eru almennt sammála um að fylgi útgerðinni. Auðlindanefndin fékk á sínum tíma nokkra sérfræðinga til að skrifa fyrir sig skýrslur um upptöku auðlindagjalda í sjávarútvegi. Einn þeirra var Phil Major sem var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti Nýja-Sjálands þegar þarlendir tóku upp gjöld í sjávarútvegi. Þegar hann hafði verið hér á landi um hríð, átt fundi með ýmsum hagsmunaaðilum og skynjað andrúmsloftið af samtölum við fjölmarga aðila, gerði hann auðlindanefndinni grein fyrir hugmyndum sínum og skilaði skýrslu með tillögum. Eitt af því sem hann fjallaði sérstaklega um voru kostnaðargreiðslur þar sem hann tiltók hvar skattgreiðendur hlypu undir bagga með útgerðinni. Að hans mati var það vegna þjónustu sjútvrn., Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, strandgæslu og vegna sjómannaafsláttar. Með því að taka þróunarsjóðsgjaldið inn fær hann út að hér sé um að ræða heildartölu upp á samtals 5,5 milljarða, hvar af hátt í einn milljarður væri þegar greiddur af greininni. Þá erum við með veiðieftirlitsgjaldið hér inni, herra forseti.

Phil Major segir í skýrslu sinni að ef framangreind endurgreiðsla kostnaðar sé ekki næg til að samfélagið telji sig fá sanngjarnan ábata þá gæti verið viðeigandi að leggja á frekari gjöld. Hann er að tala um 5,5 milljarða, herra forseti. Stundum er sagt að glöggt sé gests augað.

Það vill þannig til að þessar kostnaðartölur sem þessi maður, sem kom á vegum auðlindanefndar og skilaði henni áliti, fann út eru mjög sambærilegar við það sem Sveinn Agnarsson kemst að í umfjöllun sinni fyrir auðlindanefndina. Hann byggir á upplýsingum sem nefndin fékk frá fjmrn. hérna um kostnað vegna auðlindanýtignar. Niðurstaða hans er að kostnaður sem hlutfall af ríkisútgjöldum hafi að meðaltali verið 1,9% vegna útgerðar og 1,1% vegna stjórnar fiskveiða á árunum 1990--1996. Hann skoðar líka hvað þetta hafi verið sem hlutfall af lönduðum afla. Sé horft til sambærilegs hlutfalls af ríkisútgjöldum þeirra fjárlaga sem við erum nú að vinna eftir, fyrir árið 2002, er með þessari aðferð verið að tala um um ríflega 4 milljarða. Því segi ég, herra forseti, að ef menn eru að tala um kostnaðargjöld, eins og virðist vera skv. greinargerð með frv., eigi gjöldin að standa undir kostnaði sem ríkið hefur af nýtingu auðlindarinnar, af hverju eru menn þá að fella niður veiðieftirlitsgjaldið? Af hverju ganga menn ekki alla leið og rökstyðja þetta þá betur? Af hverju eru menn að kalla þetta veiðigjald? Er ekki best að hlutirnir heiti sínum réttu nöfnum og við tölum um þá þannig? Ég held að það mundi skýra umræðuna mikið, einfaldlega vegna þess að það er til þess eins að rugla það fólk í ríminu sem vill fylgjast með að menn séu einlægt að nota mismunandi heiti yfir það sem í raun eru bara kostnaðargreiðslur.

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að menn skoði þetta í réttu ljósi. Ef við ætlum að komast áfram með þessa umræðu og ef við viljum vita hvert við stefnum þá þarf hæstv. ráðherra, væntanlega mun það skýrast betur í sjútvn., að skýra betur hver tilgangurinn er. Hver er t.d. tilgangur ráðherra með því að kalla þetta gjald veiðigjald? Af hverju kallar hann það ekki kostnaðargjald eins og það er?

Í skýrslu auðlindanefndar er fjallað um kostnaðargjöld, ekki bara vegna sjávarútvegs heldur einnig vegna annarrar auðlindanýtingar eins og t.d. vegna virkjana eða orkunýtingar. Þar segir mjög afdráttarlaust að eðlilegt sé að ríkið innheimti gjöld vegna þess kostnaðar sem það verður fyrir vegna rannsókna og annarra atriða í þágu orkunýtingarinnar. Sama á auðvitað við í sjávarútvegi. Sama á við um aðrar atvinnugreinar þar sem um er að ræða nýtingu sameiginlegra náttúruauðlinda. Það er jafneðlilegt að einkaaðilar greiði fyrir þá þjónustu sem þeir fá frá ríkinu og í mörgum tilfellum gera þeir það auðvitað. Orkuiðnaðurinn greiðir þegar mikið af þeim rannsóknum sem fara fram í þeim geira.

Herra forseti. Menn hafa velt því svolítið fyrir sér því að hæstv. sjútvrh. vill nú að kostnaðargreiðslur séu kallaðar veiðigjald og séu skilgreindar sem greiðsla fyrir aðgang að auðlindinni. Þegar þróunarsjóðsgjaldið var sett á á sínum tíma lögðu menn af stað með þá hugmynd að það ætti að vera skilgreind greiðsla fyrir afnot af auðlindinni. Það endaði hins vegar í því að vera afmörkuð greiðsla vegna tiltekinna þátta. Hefur hæstv. ráðherra látið skoða muninn á þessu tvennu? Annars vegar kostnaðargjöldum, gjöldum sem koma fyrir skilgreinda afmarkaða þjónustu og hins vegar því að opna þetta og segja: Við erum að taka gjald fyrir afnot af auðlindinni. Breytir það með einhverjum hætti réttarstöðu þeirra sem nýta auðlindina? Sér hann það fyrir sér að með þessari breytingu, að segja að hér sé verið að greiða fyrir aðgang að auðlindinni, gæti komið upp veikleiki gagnvart jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þ.e. ef reynslurökin ein gilda ekki, að veiðirétturinn reki sig aftur til þeirra sem héldu úti skipum á tilteknum tíma hvort sem hann hefur gengið kaupum og sölum í millitíðinni, heldur sé búið að skilgreina greiðslu fyrir aðgang að auðlindinni þarna inn í? Gerir hann ráð fyrir að það geti breytt þessari réttarstöðu með einhverjum hætti? Lét hann skoða það þegar þetta frv. var unnið og ákvörðun tekin um að kostnaðargjaldið yrði látið heita þetta og skilgreint með þessum hætti? Lét hæstv. ráðherra skoða hvort þessi breyting breytti með einhverjum hætti því öryggi, eða öllu heldur óöryggi, sem handhafar veiðiréttarins búa við í dag? Eins og hæstv. ráðherra er mætavel kunnugt er aflahlutdeildum einungis úthlutað til eins árs í senn og samkvæmt Vatneyrardómi er hægt að breyta því fyrirkomulagi. Getur verið að hæstv. ráðherra gangi erinda þeirra sem vilja láta kerfið malla nánast óbreytt til þess að á það myndist enn meiri hefðarréttur? Er hæstv. ráðherra fullkomlega meðvitaður um, og hefur hann þá pottþétt rök að baki því, hvernig hann leggur tillögur sínar fram, undir hvaða formerkjum og hvaða heiti?