Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 15:25:25 (5576)

2002-03-05 15:25:25# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. er hægt að leggja ýmiss konar mat á hvað teljist til kostnaðar hins opinbera vegna útvegsins. Hún nefndi til tvö dæmi, annars vegar Phils Majors og hins vegar Sveins Agnarssonar. Endurskoðunarnefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að kostnaðinn beri að meta sem 1,5 milljarða og þar sé annars vegar um að ræða Hafrannsóknastofnunina og hins vegar fiskveiðieftirlit Fiskistofu.

Hv. þm. spyr hvers vegna nafnið sé veiðigjald, af hverju það sé ekki kostnaðargjald. Það er vegna þess að gjaldið snýst um meira en kostnað, það snýst líka um sjáanlega hlutdeild alls almennings í auðlindarentunni svokölluðu. Til einföldunar er reynt að hafa þetta eitt gjald. Því er nafnið veiðigjald að það er ekki bara kostnaðargjald heldur líka gjald fyrir aðgang að auðlindinni ótengt kostnaðinum. Þetta er í fullu samræmi við það sem kemur fram í skýrslu auðlindanefndarinnar en þar segir:

,,Efnislega skiptir það vafalaust litlu máli hvort gjaldtakan verður tvískipti eða í einu lagi, en líklega gæti verið heppilegt að lagt verði á frekar lágt kostnaðargjald vegna eftirlits og beins kostnaðar við stjórnkerfi fiskveiða sem greitt verði við úthlutun aflamarks ár hvert, en stærsti hluti kostnaðarins yrði greiddur ásamt gjaldi fyrir afnot af auðlindinni eins og síðar verður að vikið.``

Ég held að þessi framsetningarmáti í frv. sé því í fullu samræmi við niðurstöðu auðlindanefndarinnar.

Varðandi spurninguna um breytta réttarstöðu þá sé ég ekki að það snerti neitt réttarstöðuna hvernig gjaldinu er fyrir komið. Ég vísa þar til Vatneyrardómsins.

Varðandi spurningar hv. þm. um hverra erinda ráðherrann gangi er svarið að ráðherrann gengur erinda allrar þjóðarinnar en ekki einstakra aðila.