Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:05:51 (5590)

2002-03-05 16:05:51# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef oft heyrt þegar menn lýsa fótboltaleik og gjarnan er sagt að menn hafi sparkað langt frá, ,,gróflega fram hjá`` segja þá þeir sem eru að lýsa leiknum, gróflega fram hjá þegar boltinn er allt annars staðar en í markinu. Ég held, herra forseti, að þessi ræða hafi skotist gróflega fram hjá.

Ég er búinn að fara yfir það, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur ótal sinnum, hvert verkefnið sé. Íslenska verkefnið er það að við náum árangri í fiskveiðistjórn. Án þess að ná árangri í fiskveiðistjórn verður aldrei sátt. Meðan við náum engum árangri og förum aftur á bak verður, eðlilega, bullandi ósátt. (LB: En hvað á að gera?) Þess vegna segi ég að við verðum að endurskilgreina þetta, við verðum að úthluta mönnum. Við verðum fyrst og fremst að horfa til þess að við séum að úthluta hér sóknareiningum, fara nákvæmlega ofan í það hvaða veiðarfæri við notum, hvenær við notum þau og hvar.

Ég hélt að ég hefði farið nákvæmlega yfir þetta og alveg óþarfi væri að þykjast misskilja það. Hv. þm. fór hins vegar mjög vendilega yfir það og fór réttilega með það að ég hefði gefið stjórnarandstöðunni falleinkunn í þessu. Það er alveg hárrétt, hann misskildi það ekki neitt, þannig að hann var að leita að því hvort einhver væri mér sammála.

Þar sem ég verð að yfirgefa þennan sal bráðlega dettur mér í hug að benda honum á að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson situr hér og er á mælendaskrá. Hingað til höfum við haft ákaflega svipaða skoðun í nærri því öllum sköpuðum hlutum varðandi fiskveiðistjórnina þannig að hann tekur þá við af mér þegar ég fer úr salnum og heldur uppi merki þess sem við höfum verið sammála um langa ævi.