Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:19:04 (5593)

2002-03-05 16:19:04# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson leggur til ásamt mörgum öðrum hv. þm. að þjóðnýta aflaheimildir Íslendinga og telur sig með því vera að tryggja byggð í landinu og betri afkomu í sjávarútvegi, þ.e. með fyrningarleið sem eigi að vara í yfir 20 ár, velti ég fyrir mér: Hvernig telur hv. þm. að ástandið verði hjá þeim byggðarlögum þar sem útgerðarfyrirtækin eru helst? Hvernig kemur þetta til með að líta út? Það á að taka 5% á hverju einasta ári af helstu fyrirtækjum svæðanna. Á einu kjörtímabili eru tekin af þeim 20% og svona höldum við áfram.

Við sjáum t.d. Hraðfrystihúsið Gunnvöru á Ísafirði, gamla Hraðfrystihúsið í Hnífsdal sem hv. þm. starfaði fyrir í áratugi. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja þetta fyrirtæki smám saman niður, um 20% á kjörtímabili. Hvert á að færa aflaheimildir þessa fyrirtækis? Hv. þm. vann nú við að afla fyrir þessa aðila. (Gripið fram í.) Hvert á að færa þessar aflaheimildir? Það á að færa þessar aflaheimildir til ríkisins, til sveitarfélaganna. (Gripið fram í: Fékk hann kvóta?) Hv. þm. hefur sjálfur verið kvótaeigandi.

Ég er mjög hissa á að þingmaður eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sem er mjög kunnugur þessu kerfi, kunnugur staðháttum úti á landi, skuli yfirleitt leggja svona til.