Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:21:16 (5594)

2002-03-05 16:21:16# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:21]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Stórt er spurt. Það er spurt um hvernig framtíðin líti út. Ég verð að segja að ég treysti mér nú ekki til að sýna fram á hvernig framtíðin muni líta út. Ég er hins vegar jafnviss um að hv. þm. Kristján Pálsson getur með engum hætti fest hendur á því hvernig framtíðin verður í núverandi kerfi. Hefði hann t.d. getað sagt okkur það fyrir sex til átta árum að í dag yrðu svo til allar aflaheimildir horfnar úr Sandgerði? Hefði þingmaðurinn verið svo spámannlega vaxinn að geta spáð fyrir um það? Hefði hann getað spáð fyrir um að mestur hluti af aflakvóta Vestfirðinga í stóra kvótakerfinu hefði farið af svæðinu og stór hluti af honum til Akureyrar og annar hluti til Grindavíkur? Er nokkur vegur að spá fyrir um það í núverandi kerfi hvernig muni fara? Ég held að svo sé ekki. Ég held að það sé miklu nær að skoða hvernig við gætum skipað þessum málum upp á nýtt.

Ég er ekki talsmaður þess að vega þannig að fyrirtækjum í landinu að þau geti ekki gert út. Ég tel að þær tillögur sem m.a. stjórnarandstaðan hefur reifað séu alls ekki í þá veru. Hins vegar er frekar verið að tala um að menn þurfi að sitja við sama borð við að nýta veiðiheimildirnar og þurfi að nálgast þær m.a. með útboði. Við höfum lýst því í þáltill. okkar, Frjálslynda flokksins, sem við fluttum hér með Vinstri grænum á síðasta þingi, hvernig við sæjum þetta fyrir okkur. Ég hef ævinlega talið grundvallaratriði að skipta flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka og að nýtingarréttur byggðanna væri tryggður í veiðirétti strandveiðiflotans.

Ég hef oft gert grein fyrir því í þessum ræðustól hvernig ég sæi fyrir mér skilgreiningu strandveiðiflotans annars vegar og hvernig ætti að reyna að skipta flotanum upp. En ég get ekki fullyrt um hvernig framtíðin lítur út eftir tíu, tuttugu ár. Ég treysti mér ekki til þess, hv. þm.