Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 16:26:38 (5597)

2002-03-05 16:26:38# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað mjög fróðlegt að hlusta á það sem hv. 4. þm. Vestf., Guðjón A. Kristjánsson, hefur að segja um sjávarútvegsmál. Hann var um tíma einn af kunnustu aflamönnum landsins og hefur reynslu af því að vinna hjá sterku og traustu fyrirtæki í sjávarútvegi. Hraðfrystihúsið í Hnífsdal var náttúrlega eitt af þeim fyrirtækjum í sjávarútvegi sem víða var horft til. Hann gerir sér þess vegna vel grein fyrir því hvaða kostir fylgja því að slíkt fyrirtæki skuli vera í byggðinni sem stendur traustum fótum og getur byggt sig upp með hliðsjón af framtíðinni, þarf ekki að óttast að gripið verði inn í með einhverjum hætti. Fyrirtækið gat skipulagt sig fram í tímann.

Þess vegna er mjög athyglisvert, nú þegar hv. þm. stendur hér upp, að málflutningur hans skuli aðallega ganga út á það, eins og ég skil hann, að nauðsynlegt sé að draga afl úr stórútgerðunum. Þannig er þessi hv. þm. þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að hafa fjárhagslegan aðskilnað á veiðum og vinnslu.

Þetta er auðvitað ekki í samræmi við reynslu hans á meðan hann var hjá fyrirtækinu sem ég nefndi. Þetta er heldur ekki í samræmi við þá uppbyggingu sem orðið hefur í fiskvinnslunni, t.d. á Dalvík, Akranesi og Akureyri eða ef við tölum um Neskaupstað, þegar sterkur frystiiðnaður hefur verið byggður upp. Af einhverjum sökum telur þessi hv. þm. að fyrirtækin sem ég hef hér drepið á veiki byggðirnar og séu andstæð eðlilegri byggðastefnu, þ.e. sterk fyrirtæki í sjávarútvegi út um landið sem geta staðið á traustum rekstrargrunni og lagt í dýra fjárfestingu sem horfir til framtíðar.