Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:07:12 (5624)

2002-03-05 18:07:12# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig ekki á þessu síðasta, að Samherji og þeir Ólafsfirðingar hafi byggt á félagslegum grunni er náttúrlega ekki rétt en látum það nú eiga sig. Samherji er náttúrlega ekki bæjarfyrirtæki.

Ég vil líka minna hv. þm. á það að Útgerðarfélag Akureyringa var ekki rekið sem bæjarútgerð eins og gert var á Ísafirði, eins og gert var í Reykjavík og eins og gert var í Hafnarfirði þannig að þetta er satt að segja mjög hæpin samlíking.

Ég ætla heldur ekki að fara út í það hvernig samvinnuhreyfingunni hefur gengið upp á síðkastið að halda uppi störfum á Akureyri en hitt get ég sagt hv. þm. að ég er sammála honum um að Eyfirðingar eiga að fá að hafa tryggingu fyrir því að þeir geti unnið áfram á þeim forsendum sem þeir nú gera þar sem þeim hefur vel tekist.