Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 05. mars 2002, kl. 18:27:20 (5634)

2002-03-05 18:27:20# 127. lþ. 87.1 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 127. lþ.

[18:27]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Einu sinni var sagt að ef menn læsu bara eitt tiltekið nafngreint dagblað fengju þeir einkennilega sýn á heiminn í kringum sig. (Gripið fram í: Er það Mogginn?) Ég held að hægt sé að segja það um ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að ef menn hlustuðu á lýsingar hans á umræðunni fengju þeir harla einkennilega sýn á það hvernig þessi umræða hefur farið fram og langt frá þeirri sýn sem birst hefur þeim sem hafa setið undir henni.

Ég á afskaplega erfitt með að skilja vangaveltur hv. þm. um eignarréttinn og þær ályktanir sem hann dregur af þessu frv. og ummælum einstakra þingmanna um einhverjar fyrirhugaðar breytingar á eignarréttinum. Það er ekki verið að leggja til neinar breytingar á 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, alls ekki. Ég held að ég fari rétt með það að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna hafi ekkert verið breytt frá því að hún var samþykkt 1990, a.m.k. ekki svo að það hafi nein áhrif á þá stöðu að fiskimiðin og fiskstofnarnir séu í þjóðareign. Ég á erfitt með að átta mig á hvaða tilgangi þessar vangaveltur eiga að þjóna nema kannski einhverjum stundarpólitískum hagsmunum hv. þm.

Því sem hann segir um stjórnarskrána og auðlindanefndarskýrsluna hef ég svarað, reyndar oftar en einu sinni í þessari umræðu, en stjórnarskrármálefni falla einfaldlega ekki undir mitt ráðuneyti og það er ekki í mínum verkahring að flytja slík mál inn á Alþingi. Þau verður hann þar af leiðandi að ræða við aðra þá ráðherra, herra forseti, sem með þau fara samkvæmt skiptingu starfa í Stjórnarráði Íslands.