Mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 10:42:10 (5702)

2002-03-07 10:42:10# 127. lþ. 91.91 fundur 377#B mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum# (aths. um störf þingsins), VE
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[10:42]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að taka undir þakkir til forsrh. fyrir það svar sem hér hefur birst. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í efh.- og viðskn. um nokkurt skeið og við stefnum að því í þeirri nefnd að ljúka umfjöllun um hinn efnahagslega þátt málsins á fundi í fyrramálið og skila þá af okkur umsögn til iðnn.

Þegar fólk hefur rætt um hugsanleg vaxtaáhrif áttar það sig ekki á að Seðlabankinn er að tala um áhrif á stýrivexti. Stýrivextirnir hafa fyrst og fremst áhrif á skammtímavexti og kjör á skammtímalánum en miklu síður áhrif á langtímavexti eða áhrif á vexti af verðtryggðum lánum. Þess vegna er það algerlega út í loftið hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að tala um að 2% hækkun á stýrivöxtum hafi svo og svo mikil áhrif eða sambærileg áhrif á vaxtakjör af húsnæðislánum eða slíkum lánum. Það mat sem kemur þarna fram á aukningu á vaxtabyrði heimilanna er algerlega út í loftið miðað við þau tilefni sem hér er verið að ræða um.

Eins verður að hafa í huga að þessi framkvæmd fer inn á svæði þar sem erfiðleikar eru í atvinnulífi og í rauninni víða mjög dulið atvinnuleysi. Þensluáhrif af slíkri framkvæmd ef hún fer inn á slíkt svæði eru hvergi nærri því þau sömu eins og þegar verið er að fara með svona framkvæmd inn á yfirspenntan vinnumarkað. Þess vegna tel ég að ástæða sé til að búast við því að þensluáhrif af þessari framkvæmd verði tiltölulega miklu minni en annars mætti búast við, og það að þessi framkvæmd muni nýtast ekki bara Austfirðingum heldur þjóðinni allri og vera til mikilla heilla.