Skylduskil til safna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:44:06 (5722)

2002-03-07 11:44:06# 127. lþ. 91.5 fundur 228. mál: #A skylduskil til safna# (heildarlög) frv. 20/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:44]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki tími eða tilefni til að ræða hér til hlítar skoðanaágreining okkar hv. þm. á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það gerum við að sjálfsögðu á öðrum vettvangi.

Það er rétt hjá hv. þm., það er einungis þetta atriði í þessu frv. sem ég er mótfallin og sem ég vara við. Ég vil benda á að það er ekki góður siður hjá stjórnvöldum að samþykkja lög, ekki bara ein eða tvenn heldur þrenn, fern og kannski lög sem skipta tugum, sem leggja ákveðnar skyldur á herðar fjárveitingavaldinu sem er svo ekki staðið undir þegar til kastanna kemur.

Hér nægir að nefna stofnanir sem ég hef sjálf borið fyrir brjósti --- ég hef í umfjöllun um fjárlagafrv. gert athugasemdir við að ríkisvaldið geri stofnunum ekki kleift að standa undir lögbundnum kröfum sínum vegna þess að stofnanirnar fá ekki frá fjárveitingavaldinu þá fjármuni sem það kostar að standa undir kröfunum --- t.d. Skipulagsstofnun og Hollustuvernd ríkisins. Framhaldsskólarnir á sviði menntmrh. eru náttúrlega mjög skýrt dæmi, Náttúruvernd ríkisins og svona mætti áfram telja. Hér er enn eitt dæmi um lög sem við á Alþingi samþykkjum ef að líkum lætur og við vitum að ekki verða fjármunir í næstu fjárlagagerð eða á næstu árum til að sjá til þess að Ríkisútvarpinu verði gert kleift að fara eftir þeim.

Jafnvel þó að þessir fjármunir komi er miklu mikilvægara að auka fjármuni til dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpiunu en að auka þá til að skrá og geyma allt dagskrárefnið sem þaðan fer út.