Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 11:46:06 (5723)

2002-03-07 11:46:06# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 5 frá 1998, um kosningar til sveitarstjórna.

Frumvarpið er samið í félmrn. og flest ákvæði frv. miða að því að tryggja að ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna verði í samræmi við ákvæði nýrra laga um kosningar til Alþingis, sem eru nr. 24/2000. Lög um kosningar til sveitarstjórna byggðust að verulegu leyti á eldri lögum um kosningar til Alþingis, sem voru nr. 80/1987, og það er eðlilegt að breytt verði ýmsum ákvæðum sem varða framkvæmd laganna til þess að samræmis sé gætt. Engu að síður hafa sveitarstjórnarkosningar ákveðna sérstöðu svo full ástæða er til þess að hafa í gildi sérstök lög um þær kosningar.

Í frv. er lagt til það nýmæli að allir erlendir ríkisborgarar, aðrir en danskir, finnskir, norskir og sænskir, sem hafa átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag njóti framvegis kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. gildandi laga njóta einungis danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum, enda hafi þeir átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands uppfylltu alls 880 einstaklingar þetta skilyrði um kosningarrétt 1. desember 2001. Það voru sem sagt 880 norrænir ríkisborgarar sem höfðu hér kosningarrétt 1. desember 2001. Samkvæmt sömu upplýsingum, sem miðaðar eru við alla erlenda ríkisborgara sem átt höfðu lögheimili hér á landi samfleytt frá 1. desember 1998 til 1. desember 2001, hefði þetta í för með sér fjölgun á kosningarbærum mönnum um 1332. Þá yrðu alls 2.212 erlendir ríkisborgarar sem nýtt gætu sér kosningarrétt ef þetta ákvæði frv. nær fram að ganga. Með auknum fjölda útlendinga í íslensku samfélagi hafa þær raddir orðið æ háværari sem kallað hafa á aukin réttindi fyrir þennan hóp. Það verður að telja að aukin pólitísk réttindi séu til þess fallin að auðvelda aðlögun erlendra ríkisborgara og lagt er til í frv. að þetta skref verði stigið í þá átt að bjóða þennan hóp velkominn til þátttöku í íslensku samfélagi og gefa honum tækifæri til að hafa áhrif á nánasta umhverfi sitt.

Varðandi kosningar til Alþingis þá fylgir kosningarrétturinn ríkisborgararétti og meginreglan er sú að ríkisborgararétt geta menn öðlast eftir sjö ára búsetu í landinu.

Miðað er við það í frv. að sömu skilyrði verði gerð til allra erlendra ríkisborgara, annarra en danskra, finnskra, norskra og sænskra, um dvalartíma, þ.e. að viðkomandi hafi átt lögheimili hér í fimm ár samfellt. Hins vegar er gert ráð fyrir að gildi auðvitað skilyrðið um þriggja ára samfellda búsetu norrænna ríkisborgara. Rétt er að taka fram að í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð gildir sú regla að ríkisborgarar annarra Norðurlanda og ESB-landa hafa kosningarrétt og kjörgengi sem miðast við sömu búsetuskilyrði og innlendir ríkisborgarar. Sama regla gildir í Noregi varðandi norræna ríkisborgara. Kosningarréttur og kjörgengi annarra erlendra ríkisborgara í Danmörku, Noregi og Svíþjóð miðast við að þeir hafi dvalið í landinu í þrjú ár en í Finnlandi er gerð krafa um tveggja ára búsetu þessa hóps.

Önnur nýmæli í frv. byggjast að mestu á ákvæðum nýrra laga um kosningar til Alþingis, eins og áður hefur verið nefnt. Þó skal þess getið að í b-lið 5. gr. frv. er lagt til að ekki verði gerð krafa um meðmælendur á framboðslistum í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Það getur orðið örðugt að uppfylla kröfu gildandi laga um meðmælendur þannig að lítill meiri hluti í sveitarfélagi getur tæknilega náð öllum fulltrúum í sveitarstjórn með listakosningu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða meira um frv. og geri tillögu um að að lokinni þessari umræðu verði það sent hv. félmn. til athugunar.