Kosningar til sveitarstjórna

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 12:09:54 (5730)

2002-03-07 12:09:54# 127. lþ. 91.8 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í þessu frv. til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna eru sjálfsögð atriði. Verið er að gera fínar leiðréttingar á ýmsum málum, færa atriði varðandi kosningar til sveitarstjórna til betri vegar á mjög margan hátt. Hins vegar er nýmælið, stærsta nýmælið í frv. það sem lýtur að kosningarrétti erlendra ríkisborgara sem eiga lögheimili á Íslandi.

Það kom í ljós í andsvari hæstv. ráðherra áðan að hann var þeirrar skoðunar þegar málið var til vinnslu í ráðuneytinu að það ætti að gilda sami frestur, þriggja ára frestur, fyrir alla erlenda ríkisborgara sem ættu lögheimili á Íslandi. Það er ekki forsvaranlegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra segi okkur ekki hér á Alþingi hvað það var sem gerði það að verkum að hann skipti um skoðun. Hver er röksemdafærsla hæstv. ráðherra í þessu máli? Hún verður að koma fram áður en málið fer til nefndarinnar, því það er alveg ljóst að vilji samfélagsins og greinilega vilji stjórnarandstöðunnar stendur til þess að hér fái fólk að búa við jafnrétti.

Þegar við tölum um jafnrétti, þá hefur verið bent á það í umræðunni, herra forseti, að Íslendingar njóta þess réttar annars staðar á Norðurlöndunum, að fá kosningarrétt um leið og þeir öðlast lögheimili. Hæstv. ráðherra verður að svara því hér áður en málið fer í nefnd: Hvers vegna var ekki tekin sú ákvörðun að hafa þetta eins hér? Hvers vegna leggur félmrh. hæstv. það til að norrænir íbúar á Íslandi búi við lakari rétt en íslenskir ríkisborgarar á öðrum Norðurlöndum? Hæstv. ráðherra þarf að svara þessum spurningum.

Greinargerðin með frv. hvað þetta varðar er afar óskýr og eins og kom fram í málflutningi hæstv. ráðherra þegar hann var að reyna að þræla sér í gegnum grg., þá er hún illa samin. Ekki er vandað til hennar. Hún er ekki gerð nægilega gegnsæ til þess að alþingismenn og þeir sem kynna sér þingmál, á netinu t.d., geti skilið hvað liggur að baki og hvers vegna hlutirnir eru lagðir fram með þessum hætti.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir benti réttilega á að verið er að búa til í þessu kerfi okkar sem lýtur að réttindum útlendinga hér á landi ákveðna reglu. Hún nefndi hana þriggja ára reglu. Hún varðar búsetu og dvalarleyfi. Hæstv. ráðherra verður líka að svara því við umræðuna hvers vegna ekki er samræmi á milli þessa frv. og hins frv. sem er núna í umfjöllun í hv. félmn. og varðar réttindi og skyldur útlendinga. Það er alveg nauðsynlegt að við fáum einhvern rökstuðning með því hvernig þetta er lagt hér fram og ekki sé hægt að segja ,,af því bara``.

Varðandi hitt atriðið sem hér hefur verið gagnrýnt, þ.e. skort á ákvæði um rafrænar kosningar, þá er það auðvitað alveg rétt sem bent hefur verið á, það er bara sérstök forpokun, herra forseti, að ekki skuli vera gert ráð fyrir heimildum til rafrænna kosninga í frv. Hvar eru Framsfl. og hæstv. félmrh. staddir? Ekki í nútímanum. Hefur hæstv. félmrh. ekki kynnt sér stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Hvar er hann staddur í dag með tilliti til nútímans og þeirra tækniframfara sem hafa orðið? Og er hæstv. ráðherra ekki kunnugt um að hér hefur fólk verið að þróa hugbúnað í þessum efnum til þess að auðvelda okkur að innleiða rafrænar kosningar? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Hann ætlar ekki að gefa heimild í frv. til þess að þær verði mögulegar. Er þetta nú til fyrirmyndar að tala við okkar merka uppfinningafólk á þessu sviði, á sviði hugbúnaðar og tæknibúnaðar, að við ætlum ekki að heimila þessu fólki að sjá afrakstur erfiðisins sem það er búið að vera að vinna að með, eftir því sem það hefur haldið, fulltingi ríkisstjórnarinnar því það hefur lesið stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið? Hvers vegna eru ekki hér heimildir fyrir rafrænum kosningum? Hæstv. ráðherra verður að svara því.

Það er því alveg ljóst að við þurfum að fá frekari röksemdafærslu af hálfu hæstv. ráðherra áður en málið fer til nefndar. Ef ekki, þá treystir maður náttúrlega bara á góðan vilja hv. alþm. í nefndinni og að þessum málum verði kippt í liðinn og þau færð til betri vegar í umfjöllun nefndarinnar.