Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:11:03 (5742)

2002-03-07 14:11:03# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á tollalögum frá 1987. Það fjallar um breytt prósentuhlutfall tolla, að stigin verði tíu í stað fjögurra og umtalsverðar tilfærslur á tollum. Í tengslum við þessar breytingar verða síðan teknar upp niðurgreiðslur til garðyrkjubænda.

Niðurgreiðslur til bænda, hvort sem það eru bændur eða garðyrkjubændur, eru hugsaðar sem niðurgreiðslur á vöruverði til neytenda. Því miður hefur það gerst og við höfum dæmi um það úr landbúnaðinum --- ég bendi bara t.d. á kindakjöt --- að bændur fá niðurgreiðslur og tiltölulega lágt verð greitt fyrir vöru sína en í millitíðinni, áður en varan kemst til neytenda, koma aðrir aðilar til sögunnar og smyrja mjög duglega á sinn hlut þannig að verðið til neytenda verður tiltölulega hátt miðað við það sem bændur fá greitt fyrir vöruna.

Við samþykkjum þessar breytingar á tollalögum og í tengslum við þær munum við taka upp niðurgreiðslur til garðyrkjubænda og þess vegna vil ég taka fram að ég er hlynnt frv. Mér finnst þetta hið besta mál. Ég tel þó mjög brýnt að því verði fylgt fast eftir að þær niðurgreiðslur sem hér eru viðhafðar og ætlaðar til þess að greiða vöruna niður til neytenda fari ekki í milliliði.