Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:41:28 (5745)

2002-03-07 14:41:28# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins fara í sögu þessa máls vegna ummæla hv. þm. Guðmundar Árna þar sem hann talar um ...

(Forseti (ÁSJ): Stefánssonar.)

... Stefánssonar, fyrirgefðu, herra forseti, verðlagsstjóra Íslands sem hann nefndi áðan.

Í landbúnaðinum og hvað garðyrkjuna varðar giltu fyrir nokkuð mörgum árum lög í þessu landi um boð og bönn á innflutningi á slíkum afurðum, garðyrkjuafurðum. Þá voru boð og bönn. Nefnd ákvað hverju sinni hvort innflutningur væri heimill eða ekki. Þessi lög breyttust við gerð EES-samningsins. Þá breyttust þau úr boðum og bönnum, sem ákváðu hvort innflutningur væri heimill, í tolla. Það voru annars vegar prósentutollar, sem voru 30% fastir, og svo magntollar sem voru breytilegir eftir tegundum og árstímum. Þessa magntolla var hægt að hreyfa eftir vörutegundum. Nú er stjórnvöldum gefin heimild til að færa þessa magntolla til í tíu þrepum í stað fjögurra.

Það gildir eingöngu um þessa grein landbúnaðarins að yfirleitt skuli innflutningur vera leyfður. Í öðrum greinum landbúnaðarins en garðyrkjunni er innflutningur ekki leyfður í jafnmiklum mæli. Þetta er sú grein sem býr við mesta frjálsræðið í innflutningi. Í þeim aðlögunarsamningi sem er í undirbúningi og sem er unninn að tillögu þeirrar grænmetisnefndar sem hefur unnið á síðasta ári er tekið frekar á þessu máli. Þá erum við að innleiða í þessari grein meiri samkeppni en í nokkurri annarri landbúnaðargrein.