Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 14:43:38 (5746)

2002-03-07 14:43:38# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[14:43]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kjartani Ólafssyni fyrir þessa yfirferð. Í raun og sanni var hann með öðrum orðum að segja það sama og ég, að lýsa því ástandi sem verið hefur og verið er að breyta, hefur kannski gert það skilmerkilegar en ég, og ég þakka honum það. Það er alveg hárrétt, sem hann gat hér um, að grænmetisbændur eru kannski bænda helst í samkeppni við erlenda aðila og það er hárrétt að það er ekki mjög langt síðan að innflutningsbanni var létt af grænmeti. Maður lifandi, ég held að ekki nokkrum hér inni dytti í hug að fara að snúa til baka á þeirri vegferð. Ég hef ekki heyrt þá tillögu neins staðar, ekki einu sinni hjá hörðustu framsóknarmönnum sem hafa gjarnan talað í þá veru. (Landbrh.: Gæti nú verið ...) Þetta er fagnaðarefni og okkur miðar mjög fram á veg í þeim ... (Landbrh.: ... Samfylkingunni.) Hvað sagði hæstv. ráðherra, herra forseti? (Landbrh.: Þeir gætu verið í Samfylkingunni.) Sem? (Landbrh.: Vildu banna.) Já, já, hæstv. forseti, margur heldur mig sig. Það þarf ekki annað en líta á sögu aðildarflokka Samfylkingarinnar til að átta sig á því að frelsi og samkeppni í þessum efnum hefur verið aðalsmerki okkar, þó þannig að við viljum auðvitað gæta að innlendri framleiðslu. Við viljum hins vegar fara bil beggja og gæta að hagmunum allra aðila í þeim efnum. Ég leyni þeirri skoðun minni ekki neitt, herra forseti, og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar í landbúnaðarmálum að það væri ekki spurning um hvort heldur hvenær við þyrftum að etja kappi við erlenda samkeppni á nákvæmlega sama hátt og grænmetisbændur hafa gert á síðari árum.

Ég var hins vegar að leggja áherslu á, herra forseti, að þetta frv. eitt og sér gerir hæstv. landbrh. að enn þá meiri verðlagsstjóra en fyrr, og raunar er gert ráð fyrir inngripum hans oftar en áður og fyrr. Það mun auðvitað ekki laga ástandið sem blasir við okkur og hefur birst í ógnarverði á grænmeti frá degi til dags og vanda grænmetisbænda þrátt fyrir það.