Tollalög

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:15:57 (5756)

2002-03-07 15:15:57# 127. lþ. 92.5 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér til andsvara vegna þess að hæstv. landbrh. gerir sér það að leik að afbaka það sem ég sagði hér í stólnum. Ég benti sérstaklega á slæma stöðu fjölmargra bænda sem berjast í bökkum og ná ekki endum saman. Ég sagði að ástæða væri til þess að huga vel að hag þeirra ekki síður en neytenda. Mér þykir miður að þau orði séu afbökuð hér. Þess vegna kem ég upp til að leiðrétta það. Ég sagði líka, og vitnaði til þess sem stóð í fréttapósti Samtaka verslunar og þjónustu, að reikna mætti með að 3,2 milljónir færu í niðurgreiðslur vegna þess samnings sem er verið að gera. Ég er ekki að vitna í neitt annað en það sem hefur borist til manna.

Síðan sagði hæstv. ráðherra að ég væri kominn í ESB. Það er rangt. Hið rétta er að ég krefst þess að Íslendingar fái að vita og þekkja kosti þess og galla að eiga aðild að ESB. Það hefur ekki verið dregið fram og ég hygg að fjölmargir Íslendingar séu á sömu skoðun og ég, þ.e. að þeir vilji fá t.d. á sitt hvoru A-4 blaðinu kostina og gallana til þess að geta gert sér grein fyrir hvað sé rangt og hvað rétt. Munurinn á hæstv. utanrrh. og landbrh. varðandi þessi mál er alveg skýr. Annar vill ekki ræða málin. Hinn vill fara í opna umræðu og kynna málið fyrir fólki og athuga hver staða okkar er gagnvart því. Til að leiðrétta það líka, þá hefur Samfylkingin látið í ljós þá skoðun að greidd verði atkvæði um hvort sækja eigi um aðild eða ekki.