Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 15:49:42 (5760)

2002-03-07 15:49:42# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um að áætlun um landgræðslu vanti vil ég segja að hún liggur fyrir. Hér er til umræðu á eftir till. til þál. um landgræðsluáætlun fyrir árin 2003--2014 þar sem fyrir tímabilið 2002--2005 eru ætlaðir fjármunir 1.800 milljónir, 2006--2009 2 milljarðar og á tímabilinu 2010--2013 er 2,1 milljarður.

Aðeins varðandi orð hv. þm. um lúpínuna vil ég koma því hér að að hún hefur gefist afar vel til landgræðslu á eyði\-söndum Suðurlands og hefur breytt þar flórunni úr svörtum söndum í gróna reiti. Vissulega hafa miklar deilur verið um lúpínuna en á Suðurlandi hefur hún gefist vel til að hefta sandfok. Má þar geta t.d. um Mýrdalssand þar sem lúpínu hefur verið sáð í mörg ár. Þar er sandbylur nánast hættur nema í verstu rokum, eins mikill og hann átti til að verða, þannig að þar hefur hún gefist afar vel. Nú eru Íslendingar farnir að flytja lúpínufræ út til Kanada. Mjög merkilegt starf er unnið hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti, þ.e. við að flytja út þennan erfðagenabanka sem við eigum til á Íslandi og þeir eru kannski að glata frá sér. (Gripið fram í: Við styðjum lúpínuna.)