Landgræðsla

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 16:39:55 (5773)

2002-03-07 16:39:55# 127. lþ. 92.6 fundur 584. mál: #A landgræðsla# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að miklu ráði en mig langar að koma aðeins inn á nokkur atriði.

Í fyrsta lagi tek ég undir það sem ýmsir ræðumenn hafa sagt, að Landgræðslan er hin merkasta stofnun og hún og forverar hennar hafa unnið mikið starf. Íslendingar voru snemma minntir á mikilvægi þess að stöðva eyðingaröflin. Segja má að vakningin í sambandi við endurheimt gróðurlands og heftingu sandfoks og jarðvegseyðingar hafi verið tengd sjálfstæðisbaráttunni í landinu og uppbyggingu innlendrar stjórnsýslu.

Um næstsíðustu aldamót og áratugina í kringum þau stóð líka þannig á að menn voru heldur óþyrmilega minntir á það í allmörgum héruðum landsins að landkostirnir, gróðurlandið, voru ekki endilega óforgengileg auðlind. Þá hafði verið kalt í ári og kuldatímabil gengið yfir landið, lítil ísöld má segja, og það er enginn vafi á að það markaði hina miklu eyðingu og framrás eyðimerkurinnar. Sandbyljir geisuðu, bæði í uppsveitum Suðurlands, á Rangárvöllum, og á Hólsfjöllum upp af Öxarfirði og víðar enda horfði til landauðnar í heilum sveitum. Góðar bújarðir urðu óbyggilegar á þessum árum, allmargar bújarðir á Rangárvöllum eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir kom inn á, og svipaða sögu mætti segja af ákveðnum svæðum norðan og norðaustan lands. Þannig varð t.d. að flytja stórbýlið Grímsstaði á Fjöllum, eða bæjarhúsin þar, upp úr næstsíðustu aldamótum vegna þess að sandurinn sem sótti að bænum úr suðvestri var kominn inn fyrir túngarðinn. Bæjarhúsin voru flutt nokkra kílómetra norðar í landið, norðar og lægra, niður á sterkara gróðurlendi á votlendissvæðum sem þar var. Og fram á síðustu ár hefur mátt sjá hluta af tæftum gamla Grímsstaðabæjarins á háum rofabörðum suður af núverandi bæ.

Þess vegna var engin tilviljun að menn tóku snemma við sér á Íslandi, og strax á fyrstu áratugum 20. aldar, síðustu aldar, hófust skipulegar tilraunir til að hefta eyðinguna. Ekki síst tóku menn til hendi á Rangárvöllum sem síðan hafa hýst höfuðstöðvar Sandgræðslunnar og seinna Landgræðslunnar.

Þetta var um söguna, herra forseti. Nú ætla ég aðeins að víkja að tvennu sem hefur verið gert að umtalsefni og lýtur að skipulagi þessara mála. Annars vegar er spurningin hvort landgræðslustjóri skuli hafa háskólamenntun í landgræðslu. Ég verð að segja að einustu rökin sem ég hef heyrt virkilega góð gegn því eru að slík krafa kunni að koma í veg fyrir að velmeinandi guðfræðingar geti gegnt þessu starfi. Það er að sönnu rétt að þeir gætu örugglega verið hinir nýtustu framkvæmdastjórar á þessu sviði en ég sé ekkert að því að hafa þetta svona. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun hvort menn vilja binda starfið við þessa menntun en það er vel þekkt í lögum að tryggja ákveðnar fagkröfur, og nefna má mýmörg dæmi þess að það auðveldi mönnum valið að umsækjendur þurfi að uppfylla fyrirframtilteknar fagkröfur, menntunarkröfur, til þess að koma til greina í slík störf. Auðvitað þýðir það ekki að menn úr öðrum áttum gætu ekki reynst gagnlegir stjórnendur á þessu sviði. En þetta er ákveðin viðmiðun sem er þó þarna að hafa. Við skulum ekki gleyma því að svona hefur oft reynst ágætlega til þess að koma í veg fyrir að flokksskírteini ráði meiru en menntun og fagleg hæfni, að menn séu í sama flokki og sá ráðherra sem í hlut á hverju sinni eða jafnvel bræður hans. Sumir ráðherrar eiga marga bræður eða flokksbræður. (Landbrh.: Fjölgandi flokksbræður.) Það sveiflast nú upp og niður. Það er ekkert leyndarmál hygg ég að menn hafa líka oft séð í þessu þá kosti að þetta tryggi að ákveðnar faglegar kröfur séu í öllu falli uppfylltar.

Hitt er um stjórn eða ekki stjórn yfir Landgræðslunni. Ég verð að segja eins og er að yfir Landgræðslunni sem hreinni ríkisstofnun sé ég ekki endilega ástæðu til að hafa stjórn, ef um er að ræða venjulega, hreina og beina ríkisstofnun sem er þá undir viðkomandi ráðherra og lýtur þeim leikreglum. Auðvitað kemur vel til greina að svona stofnun hafi stjórn enda sé þá hlutverk hennar skilgreint. Ég velti hins vegar frekar fyrir mér hvort ekki væri ástæða til þess að á vegum ríkisins starfaði einhvers konar landverndar- eða landnýtingarráð, jafnvel skógræktar- og landverndarráð sem hefði stefnumótandi hlutverki að gegna og væri sjálfstætt og væri ekki stjórn í venjulegum skilningi, hvorki fyrir Skógræktinni né Landgræðslunni, væri ekki með puttana í daglegum rekstri þessara opinberu stofnana sem eiga að mínu mati alveg eins að vera hreinar ríkisstofnanir og starfa sem slíkar þar sem yfirmaður heyrir beint undir ráðherra, er skipaður af honum og um er að ræða venjubundinn ríkisrekstur.

[16:45]

Ég sæi hins vegar ýmsa kosti við að landgræðslu- og skógræktaráætlanir, hvort sem þær tækju til landsins í heild eða einstakra héraða, væru unnar af eða mótaðar í samráði við einhvers konar stefnumótandi ráð sem hefði yfirsýn yfir þennan málaflokk og gæti verið stjórnvöldum til ráðuneytis og komið að stefumótun til lengri tíma á þessu sviði. Þar með væru líka með vissum hætti tryggð stefnumótandi tengsl þessara systurstofnana sem Skógræktin og Landgræðslan eru. Auðvitað er sú umræða eðlilega uppi hvort ekki væri heppilegt að sameina þessar stofnanir. Það eru rök bæði með því og á móti. Þetta eru systurstofnanir. Þær þurfa að sjálfsögðu að vinna saman og ég sé engin sérstök vandkvæði á því að þær geri það þó að þær séu að lögum stjórnskipulega sjálfstæðar, heyri báðar undir sama ráðuneyti og sama ráðherra og hafi tveimur aðgreindum og aðskildum verkefnum að gegna.

Síðan vil ég aðeins víkja að einu atriði í efni frv. og það er það sem mér finnst kannski helst vanta á í þessa löggjöf þó að ég viðurkenni að það er ekki einfalt endilega þar um að búa. Það er að í samræmi við þá skipan mála að Landgræðslan og Skógræktin heyri undir landbrn. en ekki umhvrn. sem auðvitað eru líka rök fyrir, finnst mér að það skorti á tenginguna, ef niðurstaðan er sú að þetta skuli áfram tilheyra landbrn. skorti á tenginguna við landbúnaðinn í lögunum um þessar stofnanir. Helstu rökin í mínum huga fyrir því að Landgræðslan tilheyri landbrn. en ekki umhvrn., sem auðvitað kæmi einnig mjög vel til greina, eru tengslin við landbúnaðinn, þ.e. að menn séu með uppgræðslustarf sem sé skylt hlutverki bóndans sem græðara og að verið sé að auka landgæðin með nýtingu í þágu búskapar m.a. í huga. Þetta eru alveg gild rök.

Einu enn má bæta við og það er auðvitað þáttur bænda í landgræðslustörfunum og uppgræðslunni og hlutur bænda sem landgræðslumanna, vörslumanna og vaktmanna landsins. En hvar sér þess þá stað í lögunum? Ætti það þá ekki að vera hér? Ég segi hiklaust jú. Mér finnst það veikleiki á þessu frv. og því hefði ég átt von á í ljósi þróunarinnar eins og hún hefur verið undanfarin ár, að bændur hafa verið að stórauka þátttöku sína í landgræðslu og hlutverk sitt á því sviði í samstarfi við hið opinbera, að það væri búið um það með afdráttarlausari hætti í lögunum en þarna er gert. Í reynd held ég að orðið bóndi eða bændur komi aðeins fyrir á einum einasta stað í þessu frv. og það er í 9. gr. þar sem fjallað er um möguleg samstarfsverkefni Landgræðslunnar við aðra aðila. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Landgræðslunni er heimilt að taka þátt í og styðja landgræðsluframkvæmdir eða -verkefni sem eru á ábyrgð bænda eða annarra einstaklinga, landgræðslufélaga, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra.``

Þarna kemur orðið fyrir. En ég sé það eiginlega ekki annars staðar. Mér hefði fundist að það ættu beinlínis að vera greinar eða kafli um þátt bænda og ábúenda á jörðum í landgræðslustarfinu, verktöku þeirra fyrir hið opinbera og að það beri tvímælalaust að stefna að því að stórauka þennan þátt.

Herra forseti. Sömuleiðis er að mínu mati veikleiki í þessu fyrirkomulagi hjá okkur, þessu kerfi hjá okkur og þessu lagafrv. þar með að hina efnislegu tengingu við landbúnaðinn vantar, við búskapinn, við nytjarnar og við landbúnaðarstefnuna á hverjum tíma. Tökum sem dæmi nýjasta búvörusamninginn og gæðakerfið sem þar á að innleiða. Það er heldur betur mál sem varðar landnýtingarstefnuna og kemur inn á viðfangsefni og svið landgræðslunnar. En um það er ekki búið á einn eða neinn hátt hvert sé þá hlutverk bændanna og hvernig landbúnaðarstefnan og búskaparhættirnir koma inn í þetta. Hvað með t.d. stefnumótun hvað varðar samþjöppun búvöruframleiðslunnar í landinu? Það er hlutur sem á lóðbeint heima í stefnumótun á sviði landnýtingar, landgræðslu og landverndar, heldur betur. Tökum bara sauðfjárræktina sérstaklega. Það skiptir máli upp á landnýtingarsjónarmið heldur en ekki hvaða stefna er þar keyrð. Þarna þyrfti að koma við frekari samþættingu en orðið er, tryggja t.d. þó ekki væri annað en eitthvert lögbundið samráð um þessa hluti þannig að landgræðslan væri fyrir sitt leyti virkari þátttakandi í og meira ráðgefandi í sambandi við áherslur þegar lagðar eru línur fyrir þróun búgreinanna, sérstaklega þeirra sem nýta landið beint eins og sauðfjárrækt, hrossarækt og auðvitað aðrar beitargreinar og öfugt, að stefnan á þessum sviðum væri felld einhvern inn í eða samþætt við áherslur í landnýtingar- og landgræðslumálum. Þetta fyndist mér a.m.k. mega hugleiða og skoða. Ég viðurkenni alveg að það er ekki einfalt mál að búa um þetta. En það er svolítið tómlegt að lesa í gegnum nýtt frv. til laga um landgræðslu og á þessa hluti er ekki minnst. Orðið bændur kemur einu sinni fyrir í frv., ef ég hef lesið rétt, og í raun er ekkert minnst á vægi stefnunnar í landbúnaðarmálum og áherslur af þessu tagi, spurningu um t.d. samþjöppun versus að dreifa beitarálaginu. Og ef við ætlum að gera það má ekki reka bara blinda stefnu sem miðar að því að fækka búunum og stækka þau og þjappa framleiðslunni saman á færri bletti. Því fylgja ókostir í landnýtingartilliti. Það er enginn vafi á því.

Herra forseti. Það er auðvitað fjölmargt fleira sem m.a. hv. 17. þm. Reykv. kom inn á. Ég tek undir að þetta frv. á fullt erindi til umhvn. og það væri held ég heppilegt að umhvn. sæi um að lesa þetta í samhengi við þá hluti sem hafa verið að koma til sögunnar í formi alþjóðasamninga, fara yfir t.d. hluti eins og varúðarreglur Ríó-samningsins, skilgreiningu hugtaka, sjálfbæra þróun og annað því um líkt, líffræðilegan fjölbreytileika og fleira þar fram eftir götunum.

Herra forseti. Ég held að það sé enginn ágreiningur í landinu um hlutverk Landgræðslunnar hvað varðar það að hefta landeyðingu, jarðvegseyðingu, gróðureyðingu, stöðva hana og snúa í þeim efnum vörn í sókn. Það er miklu frekar að deildar meiningar verði uppi þegar kemur að því hvert sé svo markmiðið. Hvað með uppgræðsluna sjálfa, að hverju á hún að stefna, hvaða viðmið eiga menn að setja sér í þeim efnum? Er það að klæða landið skógi þannig að gamla setningin fallega úr Landnámabók verði að lokum sönn á ný, að landið verði viði vaxið frá fjöru til fjalls? Eða er það kannski eftir atvikum að tryggja að gróðursamfélagið þróist á eigin forsendum? Er það endilega að bera áburð og sá fræjum út um allar trissur eða er það að tryggja að gróðursamfélagið eins og það er í dag komist í jafnvægi og geti þróast á sjálfstæðum forsendum?

Hvað er átt við með hugtökunum ,,uppgræðsla`` í 11. tölul. og ,,vistheimt`` í 13. tölul. 2. gr.? Þetta mætti gjarnan fara yfir og útfæra betur. Eru menn þá t.d. komnir niður á það í hvaða mæli þeir vilja stunda uppgræðslu sem eins og þarna segir er framkvæmdir í þeim tilgangi að auka gróðurþekju? En hvaða gróðurþekju? Er það hin náttúrlega sem samrýmist ákvæðum 13. tölul. um vistheimt sem snýr að endurmyndun horfinna náttúrlegra vistkerfa? Hvað eru náttúrleg vistkerfi í þessu? Er það innlent gróðursamfélag? Eru það grös, lyng, birki, fjalldrapi eða er það sitkagreni og lúpína? Þetta eru spurningar sem eiga fullt erindi inn í þessa umræðu.

Þá get ég ekki annað en látið það eftir mér, herra forseti, aðeins að koma inn á erlendar tegundir, lúpínuna og aðrar slíkar. Mér finnst menn stundum lenda alveg öfganna á milli í umræðum um þau mál. Lúpína og aðrar níturbindandi tegundir eins og elri eða ölur, smári þess vegna og fleiri slíkar eru auðvitað mjög góðar til síns brúks. Þær auka jarðveginn og þær geta búið í haginn fyrir annan gróður. En þær eiga ekki endilega alls staðar heima.

Það er þannig með íslenskan jarðveg að hann er magur og við getum haft á gróðurþekju á landi sem er þannig að lúpínan leggur hana undir sig eins og að drekka vatn. Það er t.d. þannig að á rýrum þurrlendisjarðvegi víkur lúpínan ekki skapaðan hlut. Hún veður yfir lyng, berjalyng og fjalldrapa ef jarðvegurinn er magur undir og jafnágæt og hún getur verið á melum og söndum á Suðurlandi þá á hún að mínu mati jafnilla heima í þurrlendisjarðvegi sem kannski er gróinn. Vandinn við að flytja erlendar tegundir, hvort heldur eru plöntur eða dýr, inn í framandi vistkerfi er sá að hegðun þeirra er ekki alltaf fyrirsjáanleg og það er áhættan sem menn taka ef þeir koma með framandi gest og skella honum inn í lífríki sem hefur þróast á tilteknum forsendum í um þúsundir ára að við breyttar aðstæður, annað hitastig, annað rakastig, annan jarðveg er hegðun hins erlenda gests ekki endilega fyrirsjáanleg. Þetta hafa menn lært af biturri reynslu víða annars staðar. Engar þjóðir hafa jafnmikla reynslu af þessu og sumpart slæma og þjóðir Nýja heimsins svokallaða, Ástralíu og Nýja-Sjálands því þar voru fluttar inn bæði dýrategundir og plöntur í mjög framandi og einangruð lífkerfi sem þróast höfðu um áratugþúsundaskeið án mikillar snertingar við umhverfið. Ástralir eiga sínar sögur af kanínuplágum og öðrum slíku. Nýsjálendingar fluttu inn frá Skotlandi limgerði, runna, þyrnirunna sem þar var prúður og er. Í hinu svala loftslagi Skotlands er þyrnirunninn ,,gorse`` mjög prúður. Þetta er svona huggulegur runni í hallargörðum í Skotlandi sem menn klippa til og dreifir hann sér lítið. En hvað gerist þegar þessi tegund kemur í hið raka hlýja Nýja-Sjáland, land hins langa hvíta skýs? Þá gengur allt af göflunum af því að við framandi og hagstæðari vaxtarskilyrði héldu þessari plöntu engin bönd og hún veður yfir gróðurlendi, beitarland og akra Nýja-Sjálands og er einn versti skaðvaldurinn í nýsjálenskum landbúnaði í dag. Það kostar stórfé með eitrun og öðrum aðgerðum að halda niðri þessari plöntu sem gerir engum nokkurt mein í Skotlandi.

Þetta verða menn að hafa í huga. Lúpínan er alveg ágætt dæmi um þetta. Hitastigið og rakastigið og jarðvegurinn á Íslandi er annar en á mörgum þeim svæðum í Alaska þar sem ein og ein lúpína vex á stangli prúð og pen. Þetta er náttúrlega það sem hefur sýnt sig. Þess vegna þarf að fara varlega þegar menn flytja inn framandi gesti í sitt lífríki. Við Íslendingar höfum verið glannalegir í þessum efnum hingað til. Sem betur fer held ég að meðvitund manna að þessu leyti sé að aukast. Ég spái því að að lokum muni menn hafa gott af umræðunni um lúpínuna og stundum hinni tilfinningaþrungnu deilu með henni og móti sem ég hef aldrei getað tekið þátt í því að ég sé bæði kost og löst í því máli og hef séð augljósa kosti lúpínunnar eins og fleiri níturbindandi tegunda til uppgræðslu á svæðum þar sem það á við. En hættur eru augljóslega því samfara að koma með svona framandi gest inn í lífríkið. Hann getur orðið of frekur til fjárins og ræðumaður er einn af þeim sem eyða ófáum klukkustundum á sumri hverju í að slá lúpínu þar sem hún á ekki heima.

Að lokum minni ég á að svo góð sem lúpínan er er það gamli góði íslenski melurinn sem einn stoppar ægisandinn þar sem hann er á fullri ferð.