Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:51:57 (5788)

2002-03-07 17:51:57# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að spara tímann og koma sjónarmiðum mínum að í andsvari við ræðu hæstv. ráðherra. Þær lúta ósköp einfaldlega að einum þætti þessa máls og það eru þeir fjármunir sem til ráðstöfunar eru til landgræðsluverkefna.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það séu ekki hæstv. ráðherra nokkur vonbrigði að ekki skuli stefnt að meiri fjármunum í þetta brýna verkefni með sérstakri vísan til aukinnar þátttöku bænda í þessum verkefnum. Verkefnið Bændur græða landið, á þrátt fyrir öll hin fögru orð og þá staðreynd að þátttakendur eru nú um 600, ekki að fá nema 40--45 millj. á ári á fyrsta áætlunartímabili þessarar landgræðsluáætlunar og það eru mjög litlir peningar. Það er ekki nokkur vafi á því að með tiltölulega litlum viðbótarfjármunum í þennan lið mundu menn sjá gríðarlega mikið gerast. Ég fullyrði það að af þeirri þekkingu sem ég hef á þessu og reynslu. Ég hef fylgst með þessum verkefnum hjá nokkrum tugum bænda, t.d. um norðaustanvert landið, og ég fullyrði að það verður mjög mikið úr þeim litlu fjármunum sem ganga til þess að kaupa áburð og aðstoða bændur við að taka þátt í þessu verkefni vegna þess að bændur leggja fram gríðarlega mikið á móti, vinnu sína, vélakost sinn og auðvitað land sem þeir taka í fóstur sérstaklega og eru að bæta.

Herra forseti. Ef við lítum líka á fylgiskjal á bls. 3 í athugasemdum með tillögunni þá sjáum við að í raunverulegum fjárhæðum á núgildandi verðlagi er ekki verið að verja í dag nema svipuðum fjárhæðum og til komu með tilkomu stóru landgræðsluáætlananna upp úr 1975, þ.e. svona 350--400 millj. kr. á núgildandi verðlagi. En þjóðartekjur Íslendinga hafa auðvitað aukist gríðarlega á þessum 25 árum frá því að fyrstu stóru landgræðsluáætlanirnar komu til sögunnar. Ef við mældum þetta í hlutfalli við þjóðartekjur er alveg ljóst að við erum að leggja sorglega lítið til þessara verkefna í dag.