Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:56:03 (5790)

2002-03-07 17:56:03# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:56]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau orð. Út af fyrir sig þyrfti maður kannski ekki að reikna með öðru en hæstv. ráðherra væri velviljaður því að þarna kæmu til meiri peningar og vildi það gjarnan. En mér finnst það eiginlega vera í dálítilli mótsögn við bæði mikilvægi málaflokksins sem við erum að tala um og annað sem snýr að stöðu sveitanna og landbúnaðarins, að þegar menn hafa í höndunum jafnkjörið borðleggjandi verkefni og það er að auka þátt bænda á þessu sviði, skuli ekki vera reynt að gera þar aðeins betur og myndarlegar. Það finnst mér vera svolítið mótsagnakennt. Þetta eru nánast smáaurar, 40--45 millj. á ári, sem þarna eiga að dreifast á 600 aðila. Það gefur augaleið að það eru orðnir ansi litlir fjármunir.

Það er annað sem mér býður í grun að komi til sögunnar og þurfi og það er ákveðið viðhald á þeirri uppgræðslu sem bændur hafa staðið fyrir undanfarin ár. Þá kemur til sögunnar þörfin fyrir einhvern tilbúinn áburð vegna þess að grunnuppgræðsluna stunda bændur gjarnan með moði og heyafgöngum og jafnvel húsdýraáburði og eru oft árangursríkustu meðulin, segja kunnugir, að blanda þessu saman og nota a.m.k. á mel, þá áburði og fræi. Síðan getur verið mjög árangursríkt og gert þetta að góðu beitilandi að viðhalda þessu uppgrædda landi, t.d. örfoka melum og örsnauðum jarðvegi á melum, með því að gefa honum smánæringu kannski annað hvert, fjórða hvert ár í nokkur skipti eftir að frumuppgræðslunni lýkur og þá þarf fjármuni í það. Þess vegna óttast ég að það verði minna til nýrra verkefna en menn skyldu ætla nema það takist að hækka þessa upphæð. Ég tel að Alþingi eigi að lýsa vilja sínum við afgreiðslu þessarar landgræðsluáætlunar með því að hækka þennan lið verulega, a.m.k. á síðari árum tímabilsins.