Landgræðsluáætlun 2003 -- 2014

Fimmtudaginn 07. mars 2002, kl. 17:58:30 (5791)

2002-03-07 17:58:30# 127. lþ. 92.7 fundur 555. mál: #A landgræðsluáætlun 2003 -- 2014# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 127. lþ.

[17:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og getið var um í ræðum þingmanna áðan þegar við vorum að fjalla um frv. til laga um landgræðslu, kom auðvitað landgræðsluáætlunin sem hæstv. ráðherra hefur nú mælt fyrir líka til tals.

Það er alveg ljóst af þeirri landgræðsluáætlun sem hér er til umræðu að markmiðssetning er í því sambandi afskaplega mikilvæg. Í athugasemdum með þáltill. er fjallað um markmiðssetningu, þau markmið sem stefnt er að að ná, ákveðna áherslu til árins 2014 og svo er sömuleiðis farið í að telja upp helstu verkefni og aðgerðir til ársins 2006.

Mér finnst tímabært hér í umræðunni, herra forseti, að vekja máls á markmiðssetningu sem slíkri og því hvernig markmiðssetning verður best formuð þannig að hún verði marktæk og árangursrík. Það vildi svo til, herra forseti, að ég var stödd á ráðstefnu fyrir rúmum tveimur vikum norður á Akureyri sem haldin var að tilstuðlan staðardagskrárverkefnisins á Íslandi. Einn af ræðumönnum á þeirri ráðstefnu var Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi.

[18:00]

Hann hafði afar merkilega lexíu fram að færa varðandi markmiðssetningu og hann hefur komið sér upp ákveðnu módeli sem mig langar að miðla til hæstv. landbrh. Hann kallar það SMART-módelið. Í markmiðssetningu þurfum við nefnilega að vera smart.

Stefán Gíslason notar þetta hugtak, ,,smart``, sem er auðvitað sletta í íslensku máli en flestir vita hvað þýðir, til að skilgreina hvernig markmið við þurfum að setja okkur til þess að ná árangri. Við þurfum að setja okkur SMART-markmið. Í SMART stendur s-ið fyrir sértæk markmið, m-ið fyrir mælanleg, a-ið fyrir aðgengileg eða ásættanleg, r-ið fyrir raunhæf markmið, raunhæf en samt ögrandi segir Stefán, og t-ið stendur fyrir tímasett markmið.

Út frá þessari formúlu væri mjög gagnlegt að líta á þá áætlun sem hér er gerð grein fyrir. Sú markmiðssetning sem við höfum á borðum okkar er ekki mjög ,,smart``. Þarna vantar ákveðna þætti til þess að hún geti kallast ,,smart``. Markmiðin eru ekki sértæk og þau eru ekki mælanleg. Þau eru mörg raunhæf og mörg aðgengileg en mismunandi þó og það er erfitt að sjá tímasetningarfaktorinn í áætluninni varðandi verkefnin.

Markmið verða alltaf að fela í sér lýsingu á ástandi. Það er alveg ljóst. Hvernig viljum við að ástandið verði þegar við teljum markmiðinu náð? Það er í sjálfu sér ekki markmið lestrarkennslu að kenna börnum lestur heldur hlýtur markmiðið að vera að börnin verði læs. Það er því mjög mikilvægt að við ákveðum í markmiðssetningunni hvaða ástandi við sækjumst eftir þegar við stefnum að þessum markmiðum.

Í því sambandi, herra forseti, langar mig til að minna á afskaplega þarfa ádrepu frá Ólafi Arnalds sem hann flutti á samráðsfundi Landsvirkjunar 23. apríl 1999 en svo sem kunnugt er hefur Ólafur Arnalds verið meira en liðtækur, hann hefur verið þungvigtarmaður, í allri umræðu um jarðvegssrof og gróðurvernd á seinni árum. Hann fjallaði í þessu erindi sínu um jarðvegsrof og ábyrgð á umhverfinu. Ólafur heldur því fram að við stöndum á tímamótum í umhverfismálum vegna þeirrar stefnu sem mótuð var með Ríó-samningnum og þeim samningum sem búnir voru til í Ríó-ferlinu en hann segir meira, herra forseti, og langar mig til að vitna beint í þetta erindi hans, með leyfi forseta:

,,Á Íslandi hefur orðið meiri jarðvegseyðing og hnignun vistkerfa en þekkist annars staðar á jörðinni utan eyðimerkursvæða. Auðnir þekja nú stóran hluta landsins og enn á sér stað mikið jarðvegsrof. Jarðvegsrof á Íslandi var kortlagt í landinu öllu á árunum 1991--1996. Niðurstöðum hefur verið skilað með margvíslegum hætti, m.a. með ítarlegu riti um eyðinguna, og fræðslubæklingi sem dreift er ókeypis meðal almennings í landinu. Niðurstöðurnar sýna greinilega bága stöðu íslensku jarðvegsauðlindarinnar en einnig að víða eru stór samfelld landsvæði og rof er lítið. Þessar upplýsingar mynda víðtækan gagnagrunn um ástand landsins sem nota má til að taka markvissar ákvarðanir um þróun landnýtingar svo hún verði með sjálfbærum hætti. Niðurstöðurnar sýna ljóslega að stór hluti miðhálendisins telst fullkomlega óhæfur til beitar en þó má tryggja sjálfbæra nýtingu á mörgum afréttanna með því að aðgreina auðnir og rofsvæði sem standa hátt frá vel grónum hlutum afréttanna nær byggð. Frá því að niðurstöður voru kynntar árið 1997 hefur lítið miðað í þessa átt,`` segir Ólafur Arnalds. Og hann bætir við: ,,Óveruleg breyting hefur verið á beitarnytjum, og ofbeit hefur víða aukist vegna fjölgunar hrossa.``

Af þessum orðum Ólafs er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra: Sér hann fyrir sér að við komum til með að skipta beitarlandi upp í nytjaland annars vegar og auðnir og rofsvæði hins vegar sem yrðu þá algerlega friðuð fyrir beit? Ég sé ekki að það sé innifalið í þeirri áætlun sem fylgir með í plagginu sem hæstv. ráðherra talaði fyrir.

Varðandi síðan það sem Ólafur Arnalds kemur inn á í erindi sínu, þ.e. aukna beit hrossa, vil ég minna á þál. sem Alþingi samþykkti þann 16. mars 1998 um takmörkun á hrossabeit og fjölda hrossa, kannski í krafti ókunnugleika míns, en sannarlega væri orðið tímabært að fá að heyra hvað sú þál. hefur haft í för með sér. Hún var svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, að móta tillögur um aðgerðir og nauðsynlegar lagabætur til að takmarka fjölda hrossa og hrossabeit í úthaga með tilliti til jarðvegsverndar og hóflegrar nýtingar gróðurlendis. Tillögurnar verði kynntar Alþingi á haustþingi 1998.``

Má vera að þetta hafi allt saman gengið eftir, herra forseti, en ég held að rétt sé að spyrja um þetta hér í tilefni af tilvitnun minni í erindi Ólafs Arnalds.

Auðvitað vill enginn eyðileggja land. Við stöndum saman, hv. alþm., um að búa til öfluga landgræðsluáætlun og við stöndum við bakið á hæstv. ráðherra í þeim efnum.