Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 10:32:58 (5803)

2002-03-08 10:32:58# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka forseta fyrir að ég skuli fá tíma til að flytja Alþingi munnlega skýrslu um stöðu jafnréttismála á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. Jafnframt vil ég nota tækifærið og óska konum á Íslandi til hamingju með daginn.

Á yfirstandandi kjörtímabili hafa verið samþykkt nokkur lög sem vonir standa til að stuðli að auknu jafnrétti kynjanna. Má þar helst nefna ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um fæðingar- og foreldraorlof og lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna.

Í nýjum jafnréttislögum sem tóku gildi fyrir tæpum tveimur árum er áhersla lögð á samþættingu þannig að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum sviðum samfélagsins. Í því skyni hafa ráðuneytin skipað sér jafnréttisfulltrúa en hlutverk þeirra er að fjalla um og hafa eftirlit með að jafnréttissjónarmiða sé gætt á öllum málasviðum viðkomandi ráðuneytis og undirstofnana þess. Jafnréttisstofa hefur haldið nokkra fundi með jafnréttisfulltrúum þar sem m.a. hefur verið farið yfir hlutverk þeirra. Enn fremur hafa verið haldin sérstök námskeið fyrir ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna þar sem þeim var kynnt mikilvægi þess að tekið sé mið af jafnréttissjónarmiðum við alla ákvarðanatöku og áætlanagerð. Þá er starfandi nefnd á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um samþættingu jafnréttissjónarmiða í fjárlagagerð og taka fulltrúar Jafnréttisstofu og fjmrn. þátt í starfi nefndarinnar. Síðast en ekki síst þurfa sveitarstjórnir að gæta jafnréttissjónarmiða við hvers konar ákvarðanatöku. Í undirbúningi hjá Jafnréttisstofu er hringferð um landið með námskeið fyrir jafnréttisnefndir sveitarfélaganna og annað sveitarstjórnarfólk til að vekja athygli á mikilvægi samþættingar.

Í því skyni að fylgja eftir ákvæðum jafnréttislaga um að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri setji sér jafnréttisáætlanir eða kveði sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni hefur Jafnréttisstofa í samræmi við fyrirtækið Skref fyrir skref skipulagt námskeið um gerð jafnréttisáætlana sem haldið var í tvígang á sl. ári. Er nú fyrirhugað að starfsfólk Jafnréttisstofu fari hringferð um landið með sambærilegt námskeið á yfirstandandi ári.

Þá hefur Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands í samstarfi við Rannsóknastofu í kvennafræðum, námsbraut í kynjafræðum við háskólann og Jafnréttisstofu haldið námskeiðið ,,Í orði og á borði`` þar sem farið er yfir undirbúning og gerð slíkra áætlana. Fyrir vorið mun ég leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar 1998--2000 til að ná fram jafnrétti kynjanna. Í félmrn. stendur nú yfir vinna við gerð jafnréttisáætlunar og er von til að henni ljúki á sumarmánuðum.

Enda þótt kveðið hafi verið á um launajafnrétti kynjanna í íslenskum lögum í 40 ár stöndum við enn frammi fyrir þeirri staðreynd að hér viðgengst launamunur sem verður ekki skýrður með öðru en kynferði. Um það er engum blöðum að fletta að stjórnvöld vilja eyða þessum kynbundna launamun. Við höfum fengið ákúrur frá nefnd sem starfar á grundvelli samningsins um afnám allrar mismununar gegn konum, svokallaðri Z-nefnd, bæði árið 1996 og aftur í ár. Baráttan hefur staðið lengi, bæði hér og annars staðar á Norðurlöndunum, og henni er ekki lokið.

Í síðasta mánuði var haldið málþing um kynbundið launamisrétti þar sem fram komu athyglisverð erindi og umræður urðu fjörugar. Ástæða er líka til að hafa áhyggjur af hraðri þróun til búsetubundins launamunar. Samkvæmt kjararannsóknarnefnd er kynbundinn launamunur að minnka en búsetulaunamunur eykst hröðum skrefum. Tekjur allra viðmiðunarhópa eru orðnar 10--20% hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, að sérfræðingum undanskildum.

Markmið stjórnvalda er að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Það er ósk mín að Jafnréttisráð leggi í starfi sínu megináherslu á að finna leiðir til að hraða þróuninni í átt að launajafnrétti. Ég tel Jafnréttisráð góðan vettvang til þessara umræðna þar sem fulltrúar stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins eiga þar sæti. Jafnréttisráð er nú þegar þátttakandi í jafnlaunaverkefni á vettvangi Evrópusambandsins í samstarfi við aðila frá öðrum Evrópuríkjum, m.a. Noregi og Danmörku. Þá tekur Jafnréttisstofa þátt í starfi nefndar um kynbundinn launamun á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Í nefndinni er það markmið að koma fram með aðgerðaáætlun í því skyni að vinna gegn kynbundnum launamun. Er áætlað að nefndin ljúki störfum síðar á þessu ári.

Eins og kunnugt er binda stjórnvöld miklar vonir við að fæðingar- og foreldraorlofslögin dragi úr kynbundnum launamun en þau koma að fullu til framkvæmda um næstu áramót. Þau eru til þess fallin að jafna foreldraábyrgð og þá um leið að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði. Það er ánægjulegt að geta upplýst ykkur um að flestir nýbakaðir feður tóku mánuðinn sinn á árinu 2001, og svo virðist sem þeir sem eiga von á barni á þessu ári muni nýta rétt sinn. Það er eðlilegt að fjölskyldan vilji vera saman fyrst eftir að hinn nýi fjölskyldumeðlimur hefur litið heiminn augum en ég hvet feður eindregið til þess að vera jafnframt einir með börnum sínum eftir að mæðurnar eru farnar aftur út á vinnumarkaðinn. Á þann hátt kynnast þeir börnum sínum betur og tengjast þeim nánari tilfinningaböndum að því ógleymdu að barnið fær þannig tækifæri til að vera lengur hjá foreldrum sínum.

Í þessu sambandi minni ég einnig á sveigjanleikann sem er heimilaður í töku fæðingarorlofs þar sem foreldrar geta m.a. tekið fæðingarorlof samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Í janúar sl. fóru fulltrúar félmrn. og Jafnréttisstofu á fund Z-nefndarinnar til að kynna þriðju og fjórðu skýrslu íslenskra stjórnvalda um framkvæmd samningsins um afnám allrar mismununar gegn konum. Þar var stjórnvöldum hrósað fyrir hve margt hefði áunnist í jafnréttisátt frá árinu 1996 þegar við, fulltrúar íslenskra stjórnvalda, fórum og kynntum fyrstu og aðra skýrslu Íslands. Nýjum jafnréttislögum var fagnað sérstaklega auk allra þeirra verkefna og rannsókna sem hafa verið gerðar hér á landi á sviði jafnréttismála sl. ár. Enn fremur vakti athygli nefndarinnar sú áhersla sem lögð er á að karlar taki þátt í aðgerðum sem eru til þess fallnar að auka jafnrétti kynjanna. Var sérstaklega vísað til jafnra réttinda til fæðingarorlofs sem er til þess fallið að hvetja til jafnari foreldraábyrgðar. Engu að síður gagnrýndi nefndin hið háa hlutfall kvenna í hlutastörfum hér á landi sem hún telur benda til að konur axli meiri ábyrgð á fjölskyldunni í samanburði við karlmenn. En í flestum tilfellum mun þó hlutastarfið vera eigið val konunnar.

Enn fremur þótti eftirtektarvert að þrátt fyrir hátt menntunarhlutfall íslenskra kvenna væru færri konur en karlar þátttakendur í stjórnmálum og væru síður í efri stöðum innan fyrirtækja og stofnana, þar á meðal innan utanríkisþjónustunnar. Í þessu tilliti má minnast á störf nefndar sem ætlað er að auka hlut kvenna í stjórnmálum sem ég skipaði í sept. 1998. Hlutfall kvenna á þingi nú er 36,5% en var 25% á síðasta kjörtímabili.

Þessi nefnd hefur unnið ötullega að því að hvetja konur til þátttöku í stjórnmálum og hafa m.a. verið haldin námskeið fyrir konur í þessum tilgangi í öllum landsfjórðungum. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnarkosningum er nú 28,2% en vonir standa til að það verði hærra í vor. Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um kynjajafnrétti þegar ráðið er í störf innan fyrirtækja eða stofnana og er þá ekki nægilegt að telja hausa heldur þarf að skoða stöðurnar sem um er að ræða.

Eins og við öll vitum er ofbeldi gegn konum staðreynd í öllum samfélögum. Um er að ræða margþætt vandamál sem á sér djúpar rætur í samsetningu þeirra. Það er ljóst að margar hindranir eru í veginum sem koma í veg fyrir framþróun í baráttunni gegn þessu vandamáli og tilætluð áhrif úrræða. Hvatti Z-nefndin íslensk stjórnvöld til að halda áfram baráttunni gegn þessu vandamáli, m.a. með því að styrkja innlenda löggjöf til að tryggja réttarúrræði og vernd fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi. Vildi hún enn fremur vekja athygli stjórnvalda á vægum refsingum hér á landi fyrir glæpi er fela í sér kynferðislegt ofbeldi og þá sér í lagi í nauðgunarmálum.

Í síðasta mánuði tók ég þátt í evrópskum ráðherrafundi í Santiago de Compostela um ofbeldi gegn konum. Reynslan hefur sýnt að afleiðingar ofbeldis gegn konum eru mjög kostnaðarsamar fyrir samfélagið. Værum við betur sett ef unnt væri að verja þeim fjármunum í forvarnir og annað uppbyggingarstarf konum til handa. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðist verði í markvissar forvarnaaðgerðir þar sem m.a. borgararnir eru gerðir meðvitaðir um tilvist ofbeldis gegn konum. Enn fremur þarf að efla fræðslu um ofbeldi gegn konum á öllum skólastigum. Þar sem vandamálið er til staðar verður ekki hjá því komist að bregðast við því. Mikilvægt er að tryggja þolendum viðeigandi aðstoð og umönnun, bæði lögreglu og starfsfólks heilbrigðisstétta og félagsþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt. Þá þurfa dómarar, sækjendur og verjendur að vera meðvitaðir um sérstöðu þessara mála. Gerendur ofbeldis gegn konum þurfa oft einnig á aðstoð að halda. Í samræmi við framkvæmdaáætlun frá árinu 1998 um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna var hleypt af stokkunum tilraunaverkefni sem nefndist ,,Kallað til ábyrgðar``. Verkefnið var unnið í samvinnu félmrn., heilbrrn. og karlanefndar Jafnréttisráðs en því lauk á árinu 2001. Nú er til athugunar hjá þessum tveimur ráðuneytum hvernig unnt sé að standa að framhaldi sambærilegra meðferðarúrræða til að aðstoða gerendur ofbeldis gegn konum.

Ísland er aðili að svokallaðri Daphne-verkefnaáætlun sem Evrópusambandið, EFTA- og EES-ríki standa að. Um er að ræða fjögurra ára verkefnaáætlun um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi gagnvart konum, ungmennum og börnum en það hófst árið 2000. Meginmarkmiðið er að hvetja til framkvæmda við verkefni sem ætlað er að vernda börn, ungmenni og konur fyrir hvers konar ofbeldi og efla stuðning við þolendur ofbeldis til að stuðla megi að bættri líkamlegri og andlegri velferð þessara hópa. Áhersla er m.a. lögð á samskiptanet þeirra sem vinna að þessum málum, upplýsingamiðlun um samhæfingu aðgerða, samvinnu milli landa og því að gera almenning meðvitaðri um tilvist ofbeldis í umhverfi sínu. Árlega er unnt að sækja um styrki fyrir verkefni en umsóknarfrestur í ár rennur út þann 26. apríl nk.

Þá hefur fulltrúi Jafnréttisstofu tekið þátt í vestnorrænum vinnuhópi sem er að vinna tillögur að þverfaglegum aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi, bæði innan lands og í samvinnu landanna þriggja.

Að auki tökum við þátt í vinnuhópi norrænu ráðherranefndarinnar og Eystrasaltsríkjanna um upplýsingaherferð um mansal til kynlífsþrælkunar. Vonir standa til að umræddar herferðir hefjist í ríkjunum í næsta mánuði.

Þegar litið er heildstætt á ofbeldi gegn konum liggur ljóst fyrir að margir ólíkir aðilar koma að þessum málum, bæði opinberir og einkaaðilar. Þar er verðugt að nefna hið ötula starf kvennahreyfinga sem hafa lagt málefninu lið, m.a. með stofnun og rekstri Kvennaathvarfs. Til þess að stjórnvöld nái sem mestum árangri í baráttunni verður að telja nauðsynlegt að samhæfa aðgerðir þeirra á ólíkum fagsviðum. Mun ég því beita mér fyrir stofnun samráðsnefndar félmrn., heilbrrn. og menntmrn. ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga svo unnt sé að styrkja þverfaglega samvinnu á þessu sviði. Það er mikilvægt að sveitarfélögin taki virkan þátt í þessu fyrirhugaða samstarfi þar sem íbúarnir eru oft í nánum tengslum við stofnanir þeirra. Óhjákvæmilegt er að meiri nánd sé innan smærri samfélagseininga sem oft gerir þó þolendum ofbeldis erfiðara fyrir þar sem skammartilfinningin getur verið sterkari. Þessu þarf engu að síður að breyta. Þar sem aðrir íbúar sveitarfélagsins eru uppfræddir um ofbeldi gegn konum munu þeir veita þolandanum stuðning fremur en fordæma hann enda er sökin ekki þolandans. Ekki síður mikilvægt er að slík samráðsnefnd efni til náins samstarfs við frjáls félagasamtök sem starfa að málefninu. Þannig er von um að barátta stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi verði á allan hátt markvissari.

Ég þakka fyrir, herra forseti.