Staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 11:49:06 (5816)

2002-03-08 11:49:06# 127. lþ. 93.5 fundur 383#B staða jafnréttismála, munnleg skýrsla félagsmálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[11:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í dag, hinn 8. mars, er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Af því tilefni efna samtök launafólks og ýmis önnur almannasamtök, þar á meðal Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, til fræðslu- og baráttufunda, til að vekja athygli á hlutskipti kvenna í stjórnmálum, í efnahagslífinu og á heimilinu. Síðar í dag verður efnt til fundar um áhrif hnattvæðingar á stöðu kvenna.

Það er vel við hæfi að Alþingi skuli efna til þessarar umræðu í tilefni af þessum degi og að hæstv. félmrh., sem fer með jafnréttismál í ríkisstjórninni, skuli gera grein fyrir stöðu mála. Í umræðunni staðnæmast menn við ýmsa þætti. Menn staðnæmast við launamálin og langar mig til að lesa nokkrar línur úr ályktun sem Alþýðusamband Íslands, BSRB, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra bankamanna sendu frá sér í morgun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Kynbundið launamisrétti er einkenni á íslenskum vinnumarkaði. Konur njóta mun lakari kjara en karlar, þar sem verulegur hluti launamunarins verður eingöngu skýrður með misrétti kynjanna, óháð félagslegum þáttum eins og ólíku vinnuframlagi, mismunandi verðmæti vinnunnar og öðrum ástæðum.``

Þetta er vert að hafa í huga og vert að íhuga, þ.e. með hvaða hætti við getum tekið á þessu á markvissan hátt. Við erum ekki að ræða þetta í fyrsta sinn. Það er umhugsunarefni hve lítið hefur þokast á undangengnum árum.

Menn staðnæmast við ofbeldi. Hæstv. félmrh. vakti athygli á því að ofbeldi gegn konum væri samfélaginu dýrt en þar er fyrst og fremst um að ræða ranglæti og mannréttindabrot sem er blettur á samfélagi okkar, blettur sem ber að afmá.

Menn staðnæmast við jafnrétti í stjórnmálum. Vakin hefur verið athygli á því að þar hafi nokkuð þokast. Hér í þessum sal var hlutur kvenna 25%, en er kominn í 36,5% nú. Þar þarf enn að gera betur og rétta hlut kvenna. Sama gildir um sveitarstjórnarmálin. Þar er hlutur kvenna á yfirstandandi kjörtímabili 28,2%, en þarf að sjálfsögðu að verða 50%.

Menn hafa bent á það við umræðuna að í stjórnum ýmissa stofnana samfélagsins, Seðlabanka og öðrum ámóta stofnunum, sé ekki konur að finna, þetta sé karlasamfélag. Það er vissulega verðugt verkefni að rétta þessa mynd.

Ég hvet hins vegar til þess að við glötum ekki hinum róttæku þáttum kvennabaráttu níunda áratugarins. Þá töluðu konur um að fella valdastólana og skapa jöfnuð og jafnrétti í þjóðfélaginu. Við megum ekki gerast kvótasinnar í þessum efnum og staðnæmast við þá hugsun eina að það verði jafnmargar konur og karlar á forstjórastólum ef forstjóraveldið byggir á misrétti. Ekki hugnaðist mér sú mynd, sem hv. þm. Pétur H. Blöndal dró hér upp, að konur ættu að einblína á það eitt að setjast á slíka stóla. Við eigum að einblína á hitt að láta gott af okkur leiða í samfélaginu, konur og karlar.