Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:15:45 (5822)

2002-03-08 12:15:45# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það virðist hálfógnvekjandi verkefni að fara í gegnum þessa till. til þál. sem telur hátt á sjöunda hundrað blaðsíðna. En málið er þó tiltölulega einfalt. Um er að ræða fullgildingu samnings sem að vísu mun leiða til nokkurra breytinga á lögum, einkanlega í þá veru að sams konar réttindi nái til samskipta við Sviss og nú eru á Evrópska efnahagssvæðinu.

Eins og kunnugt er eiga fjögur ríki aðild að EFTA, Liechtenstein, Sviss og Noregur, auk Íslands. En eitt þessara ríkja, Sviss, á hins vegar ekki aðild að EES. Það sem þessi þáltill. gengur út á er að samþykkja viljann til að breyta lögum sem færa samskipti Sviss og EES-ríkjanna í sama horf og eru gagnvart ESB.

Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er að vekja í örfáum orðum athygli á því að við þurfum jafnan að fara varlega, löggjafinn, þegar við fáum slík verkefni í hendur að samþykkja þáltill. eða lög sem taka til þessa samstarfs. Ég vil minna á það þegar við hér eitt vorið samþykktum viðamikla þáltill. um vilja okkar til að breyta ýmsum grundvallarlögum. Ein sú löggjöf sem við þá samþykktum, eða öllu heldur sem við lýstum vilja okkar til að samþykkja, laut að raforkumálum. Þetta fór allt of hljóðalaust í gegnum þingið. Að vísu vöktu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs athygli á málinu og efndu til talsverðrar umræðu. En hún hefði betur orðið meiri. Hvað var þar um að ræða? Þar var um það að ræða að við lýstum vilja okkar til að samþykkja tilskipun Evrópusambandsins um að gera grundvallarbreytingar á raforkumálum Íslendinga og þessar breytingar áttu að taka gildi og eiga að taka gildi á miðju þessu ári, 1. júlí í sumar, ef ég man rétt.

Út á hvað ganga þær breytingar? Þær ganga út á það að við föllumst á að aðgreina í raforkugeiranum framleiðsluna, dreifinguna og í þriðja lagi verslunina með rafmagn. Þetta er undirbúningur Evrópusambandsins að því að markaðsvæða raforkugeirann og orkugeirann allan í Evrópu. Þá gerist það náttúrlega að Íslendingar samþykkja þetta líka, því miður, að því að ég tel án nægilegrar yfirvegunar. Það er nefnilega ekki endilega það sama sem á að gilda á meginlandi Evrópu og á Vestfjörðum, svo dæmi sé tekið. Ég átti á sínum tíma ágætan fund með ýmsum starfsmönnum Orkubús Vestfjarða og spurði hvort þeir teldu til hagsbóta fyrir sína stofnun, fyrir sína starfsemi, að fara að þessari tilskipun, að aðgreina framleiðsluna, dreifinguna og söluna á rafmagni eins og tilskipunin gengur út á. Þeir töldu þetta vera af hinu illa og ekki til hagsbóta fyrir notandann eða fyrir fyrirtækið. Ég held að þarna hefðu Íslendingar átt að standa vaktina betur og leita eftir undanþágu frá þessari tilskipun. Ég held að við hefðum átt að gera það og vekja athygli á því að íslenski raforkumarkaðurinn er alla vega ekki enn sem komið er hluti af raforkukerfi Evrópu sem er að stefna hratt til markaðsvæðingar.

Reyndar er ég mjög gagnrýninn á þær breytingar sem Evrópusambandið er að koma í gegn á þessu sviði og tel þar um að ræða allt of mikla miðstýringaráráttu. Í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, þar sem að verulegu leyti er stundaður markaðsbúskapur með orkuna, hafa menn farið allt aðra leið. Í sumum ríkjum eða fylkjum Bandaríkjanna er raforkurframleiðslan og dreifingin á hendi einkaaðila, fyrirtækja. Reyndar á það við í allflestum tilvikum. En þó eru dæmi um annað. Í Los Angeles t.d. eru orkuveiturnar á hendi borgarinnar. Los Angeles slapp þannig við Enron-ævintýrið eða hrollvekjuna, martröðina.

Það sem ég er að vekja athygli á engu að síður er að í markaðsvæddu fyrirkomulagi Bandaríkjanna ráða einstök ríki og borgir hvaða fyrirkomulag þau búa við. Þetta kemur ekkert í veg fyrir að markaðurinn fái að njóta sín þar sem menn vilja svo við hafa. En miðstýrt vald, hin miðstýrða reglustika, er ekki fyrir hendi eins og er í Evrópu og því miður í allt of ríkum mæli.

Herra forseti. Ég kom hingað fyrst og fremst til að vekja athygli á því að okkur ber alltaf, ævinlega, að standa vaktina. Við eigum aldrei að samþykkja neitt með bundið fyrir augun, að sjálfsögðu ekki. Það hafa því miður orðið slys hér og ég tel ástæðu til enn og aftur að vekja athygli á því stórslysi sem varð þegar við samþykktum þáltill. --- öllu heldur stjórnarmeirihlutinn. Við gerðum það ekki í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði --- þáltill. stjórnarinnar sem skuldbindur okkur til þess að aðgreina raforkugeirann með þessum hætti, raforkugeiranum á Íslandi til mikillar óþurftar.