Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:32:29 (5825)

2002-03-08 12:32:29# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eðli flókinna og mikilvægra alþjóðlegra samninga að menn ná ávinningum á sumum sviðum en á öðrum sviðum þurfa þeir að gefa eftir. Menn leggja hins vegar í þá sjóferð að ljúka slíkum samningum af því þeir telja að þegar upp er staðið sé ávinningurinn meiri. Í þessu tilviki held ég hann sé miklu, miklu meiri en þeir ágallar sem má finna á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég er þeirrar skoðunar að grundvöllurinn að góðæri síðustu ára og grundvöllurinn að framsókn okkar Íslendinga á ýmsum sviðum, til að mynda á sviði sjávarútvegs, fiskvinnslu, hafi að verulegu leyti mátt rekja til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Hv. þm. segir að hann telji að sá samningur hafi þrengt að fullveldi Íslands. Þá ber að rifja það upp, herra forseti, að á sínum tíma var nefnd fjögurra lögspekinga falið að kanna hvort það fullveldisafsal sem mátti með rökum telja að væri að finna í samningnum stríddi gegn stjórnarskrá Íslands. Niðurstaða þeirra var að svo væri ekki. Þeir sögðu hins vegar að það væri alveg á mörkunum. Nú hefur það hins vegar gerst sökum breytinga á innviðum Evrópusambandsins, að þau áhrif sem við höfðum áður eru ekki jafnmikil og við töldum. Þannig má segja að án þess að við höfum gert ráð fyrir því hafi ákveðin atburðarrás farið af stað sem gerir það að verkum að við erum hægt en bítandi enn að tapa fullveldi. Það má vera að með því séum við komin út yfir þau mörk sem æskilegt væri. Ef það er svo, herra forseti, þá verður hv. þm. að taka afstöðu til tveggja hluta. Í fyrsta lagi: Vill hann fara í að breyta stjórnarskránni til þess að gera þetta heimilt? Eða vill hann taka ákvörðun um að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem sannanlega mundi auka áhrif okkar innan Evrópusambandsins og þar með draga úr þessum fullveldishalla og gera það líklegra að samningurinn eða staða okkar gagnvart Evrópu stæðist stjórnarskrá eins og hún er í dag?