Fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:36:12 (5827)

2002-03-08 12:36:12# 127. lþ. 93.7 fundur 551. mál: #A fullgilding stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirra forréttinda aðnjótandi að mega sitja með hv. þm. í EFTA/EES-nefndinni, þannig að ég er því gerla kunnur að hv. þm. veit mjög mikið og margt umfram aðra þingmenn um eðli EES-samningsins. Auðvitað veit hann það jafn vel og ég, vegna þess að við höfum báðir svo oft tekið þátt í umræðum á vettvangi þeirrar nefndar, að breytingar hafa orðið á innviðum Evrópusambandsins. Þær breytingar hafa dregið úr þeim möguleikum sem hinn upphaflegi samningur gerði ráð fyrir varðandi áhrif Íslendinga. Þess vegna er það engin rökvilla að segja að framvindan innan Evrópusambandsins hafi skert fullveldið, meira en ýmsir sáu fyrir.

Við hljótum auðvitað að taka mið af því, herra forseti, og þá er tvennt uppi, það er reyndar þrennt uppi. Það er í fyrsta lagi að leggja af þátttöku okkar í EES og gera tvíhliða samning við Evrópusambandið, eins og flokkur hv. þm. vill, í öðru lagi gera breytingar á stjórnarskránni þannig að því megi halda fram að þátttakan stríði ekki gegn stjórnarskránni, og í þriðja lagi, sem ég held að sé hallkvæmast, að sækja um aðild að Evrópusambandinu á grundvelli vel skilgreindra samningsmarkmiða.

Ég er algjörlega ósammála hv. þm. að þá uppsveiflu sem hefur orðið hér á landi megi að öllu leyti rekja til alþjóðlegrar uppsveiflu. Hv. þm. má ekki horfa fram hjá því að við ruddum úr vegi ákveðnum hindrunum með aðild okkar að EES, sem gerir það að verkum að jákvæð áhrif þessarar uppsveiflu flæða miklu rýmra til Íslands en ella. Þetta skiptir miklu máli og hv. þm. verður auðvitað skoða þetta í því ljósi.

Svo hvet ég hann til þess að kynna sér innihald samninga Sviss við ESB, þá sér hann að Sviss nær ekki jafnmiklum árangri og við höfum með aðild okkar að EES.