Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:48:06 (5830)

2002-03-08 12:48:06# 127. lþ. 93.8 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál., 566. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Makedóníu# þál., 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ekki þarf mikið að segja um þessar tillögur. Ég vil þó í upphafi máls míns taka það fram að mér fannst mjög jákvætt að fulltrúar Alþingis í alþjóðasamstarfi EFTA skyldu vera hér við umræðuna um fríverslunarsamninginn áðan. Það er mjög mikilvægt að sjónarmið þeirra komi inn í umræðuna á Alþingi af því að þau eru þeir fulltrúar okkar sem vinna að þessum málum á erlendum vettvangi. Því miður er allt of lítið um að fulltrúar okkar sem hafa kannski átt einhvern þátt í að vinna slík mál eða koma að þeim í erlendu samstarfi komi inn í umræðuna þegar við erum að fjalla um afmörkuð mál undir öðrum hatti.

Við í Samfylkingunni erum fylgjandi gerð fríverslunarsamninga og ég get líka fullyrt að það er fullur pólitískur stuðningur Samfylkingarinnar við þá vinnu hæstv. utanrrh. sem snýr að stuðningi við lýðræðislega þróun í Evrópu. Sjálf er ég sannfærð um að ýmiss konar alþjóðlegt samstarf sem við erum m.a. aðilar að sé ríkur þáttur okkar í bæði friðaruppbyggingu og þróun í þeim þætti Evrópu þar sem menn eiga enn þá langt í land. Og sérstaklega finnum við það sem störfum í Norðurlandaráði og eigum samskipti við Eystrasaltsríkin hvað þeim finnst skipta gífurlegu máli að geta verið með í Evrópu og verið viðurkenndur hluti Evrópu. Ég get því lýst yfir stuðningi okkar við þessa meginþætti.

Ég tek eftir því við skoðun á þessum tillögum að áhersla er lögð á tvennt, annars vegar að það eru undantekningar í viðauka III og að tollar samkvæmt þeim viðauka munu falla niður í áföngum, allt að níu árum, og svo hinu að það er sameiginlegt með öllum tillögunum, held ég, að löndin verða að gera tvíhliða samninga um landbúnaðarmál, að landbúnaðarmál eru ekki hluti af þessum samningum heldur semur hvert EFTA-ríki tvíhliða við hvort heldur er Makedóníu eða Króatíu. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra sér ástæðu til að nefna eitthvað frekar hvers vegna ekki er hægt að ná þeim samningum hér, hvort þetta gildir almennt um að undantekningarnar séu gerðar hér á iðnaðarvörum, og í þeim tilfellum þar sem undantekningar eru falla tollar niður í áföngum á allt að níu ára tímabili. Það er bara gengið frá því að það er aðlögun á ákveðnum sviðum en þegar kemur að viðskiptum með landbúnaðarafurðir semur hvert EFTA-ríki tvíhliða. Fróðlegt væri að heyra hvort það er almennt þannig eða hvort þetta á sér sérstakar skýringar.