Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 12:54:22 (5832)

2002-03-08 12:54:22# 127. lþ. 93.8 fundur 565. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Króatíu# þál., 566. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Makedóníu# þál., 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af þeirri staðreynd, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði hér um, að samið sé tvíhliða um landbúnaðarvörur, þ.e. hreinar landbúnaðarvörur, er það einfaldlega vegna þess að þarna er gætt samræmis við þá samninga sem við gerum við t.d. Evrópusambandið. Það er samið sameiginlega um unnar landbúnaðarvörur en sérstaklega, hvert ríki fyrir sig, um það sem við getum kallað hreinar landbúnaðarvörur eins og kjöt, mjólkurafurðir og slíkar vörur. Sama reglan hefur verið í þessum fríverslunarsamningum við öll ríkin og með sama hætti eru samningar Evrópusambandsins við þessi ríki. Þarna er því gætt samræmis, og við teljum að við náum betur utan um landbúnaðarvörurnar með þessum hætti. Þessi er ástæðan fyrir því að þetta er gert svona.

Út af fríverslunarsamningum öðrum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á erum við væntanlega núna að ganga frá fríverslunarsamningnum við Singapúr. Fulltrúar á okkar vegum eru í Singapúr vegna þess að við förum með formennsku í EFTA, eins og hv. þm. veit, og við höfum lagt mikið upp úr því að ljúka því máli. Þar hafa verið ákveðin vandkvæði sem snerta aðrar þjóðir og ég veit ekki betur en að það sé u.þ.b. að leysast. Þótt ég vilji ekki taka dýpra í árinni með það voru síðustu fréttir þær að það væri að leysast.

Út af Kanada höfum við áður rætt hér að þar eru vandkvæði út af skipasmíðaiðnaði. Við höfum lagt mikla áherslu á að ljúka því máli og erum stöðugt að vinna að því. Við munum leggja mikið upp úr því í íslensku utanríkisþjónustunni að reyna að ljúka því máli núna áður en formennskutímabili okkar í EFTA lýkur þannig að það liggi ljóst fyrir á vorfundi EFTA. Það hefur því miður dregist allt of lengi af ástæðum sem ég hef áður rakið hér á Alþingi en við leggjum mikið upp úr því að ljúka því máli.

Út af Japan tókum við það mál upp við marga ráðherra í opinberri heimsókn sem ég var í nýlega í Japan og lögðum á það áherslu að EFTA-ríkin vildu gera fríverslunarsamning við Japan. Það er ekki mikill áhugi fyrir því í Japan að gera fríverslunarsamninga. Þeir vilja leysa sín mál fyrst og fremst á grundvelli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og hafa ekki verið áhugasamir um að fara út í fríverslunarsamninga við einstök lönd þó að þar virðist vera ákveðin breyting í uppsiglingu. Þess vegna munum við halda þessu áfram því við teljum mikilvægt að ná slíkum samningum við Japan sem er næststærsta efnahagsveldi í heimi á eftir Bandaríkjunum, og tel ég þá ekki Evrópusambandið sem eitt ríki heldur mörg ríki af sjálfsögðum ástæðum. Mjög mikilvægt er að ná slíkum samningum við Japan og EFTA-ríkin leggja á það mikla áherslu og munu halda áfram að gera það. Því munum við halda því á lofti áfram í samskiptum okkar við Japan, og strax og jákvæð viðbrögð koma þaðan erum við tilbúin til þess að fara að vinna frekar að málinu.