Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:49:03 (5836)

2002-03-08 13:49:03# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Á meðal bisnessmanna, bæði á meðal þeirra sem klæðast hvítum læknasloppum og einnig hinna sem eru bara á jakkafötum eða í drögtum og halda til í verðbréfahöllinni, eru nú uppi tvær kenningar um hvernig eigi að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Annars vegar eru þeir sem vilja nýta markaðinn að fullu. Fyrirtækið Læknalind er af þessum toga. Hugmyndin er að einstaklingar og fjölskyldur borgi eins konar áskriftargjald og reiði sig á eigið peningaveski og síðan einkatryggingar. Það var held ég engin tilviljun að sama dag og Læknalindin opnaði hófu tryggingafyrirtækin að auglýsa heilsufarstryggingar.

Hin leiðin sem einkavæðingarsinnar vilja nú fara er sú sem kennd hefur verið við einkaframkvæmd, þ.e. að fela einkaaðila að reisa og reka heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús eða sjá um einstaka þætti starfseminnar. Hér er meiningin að skattborgarinn greiði að fullu fyrir allt og kosturinn er, segja menn, að sjúklingum verður ekki mismunað því ríkið borgi brúsann.

Þetta virðist hæstv. heilbrrh. hafa keypt því hann hefur lýst því yfir að þetta sé ekki einkavæðing. Jú, hæstv. heilbrrh., þetta er einkavæðing því gagnstætt ýmsum sjálfseignarstofnunum á heilbrigðissviði, er hér verið að gera heilbrigðisþjónustuna að atvinnustarfsemi sem ætlað er að gefa af sér arð. Það er verið að breyta þjónustustarfsemi í bisness og það er grundvallaratriði.

Gagnvart skattborgaranum er þetta fullkomið ábyrgðarleysi því þetta fyrirkomulag hefur alls staðar þar sem það hefur verið reynt reynst miklu dýrara, miklu kostnaðarsamara. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er þrýst á hæstv. heilbrrh. af einkavæðingarsinnum í sloppi og án slopps, og vil ég eindregið hvetja hann til að standa vaktina fyrir hönd sjúklinga og einnig skattborgara og að hann gæti betur að hagsmunum ríkissjóðs en gert var þegar samningurinn var gerður við Öldung hf. um Sóltúnsheimilið. Ég held að ýmsir alþingismenn, bæði úr stjórnarandstöðu og einnig stjórnarsinnar sem hafa haft fyrir því að kynna sér þann samning, viti hvað ég er að fara.

En eitt finnst mér áhyggjuefni, þ.e. að heyra á hvernig hæstv. heilbrrh., sem hefur viljað standa þessa vakt og hefur lýst góðum vilja í því efni, er farinn að tala á tungumáli markaðshyggjunnar.