Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:53:31 (5838)

2002-03-08 13:53:31# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir þau grundvallarmarkmið sem góð heilsugæsla á að byggjast á og hæstv. ráðherra rakti í máli sínu. Ég geri ekki athugasemd við einkarekstur í heilsugæslu eins og hún er rekin t.d. hér í Reykjavík í Lágmúlastöðinni. Mismunandi rekstrarform geta vel farið saman í velferðarþjónustunni. Aðalatriðið er að hafa jafnan aðgang að grunnþjónustunni, góða og greiða þjónustu og að fólki sé ekki mismunað eftir efnahag. Það er grundvallaratriði. Samfylkingin hafnar tvöföldu kerfi í heilbrigðisþjónustunni.

En ég spyr: Hvers vegna er fyrirhugað að bjóða fyrst út heilsugæslustöð á þessum stað í Kópavogi? Hvað ræður því? ,,Ekki er það Læknalindin``, sagði hæstv. ráðherra hér í máli sínu, þ.e. einkavæðingin í Kópavogi. Hvað þá?

Voga- og Heimahverfi í Reykjavík hafa beðið lengi eftir heilsugæslustöð og íbúum þar var lofað að þeir yrðu næstir til að fá þessa þjónustu. Hvers vegna er það ekki svo?

Það er líka vitað að ástandið er einna verst og þörfin mest í Hafnarfirði. Hvað ræður þessari forgangsröðun?

Ég spyr, herra forseti: Er ekki skortur á heimilislæknum? Gerir hæstv. ráðherra sér vonir um að margir heimilislæknar séu á lausu til að bjóða í þessa starfsemi?

Undanfarin þrjú ár hefur verið beðið um 12--15 nýjar stöður í heilsugæslunni við fjárlagagerðina og á síðasta ári voru aðeins veitt 5,5 stöðugildi. Allir þekkja ástandið í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það er löng bið, ekki er hægt að anna eftirspurn og fólk leitar í dýrari þjónustustig. Það er ekki bjóðandi. Heilsugæslan í dag er ekki mönnuð til að anna eftirspurninni. Það þarf að grípa til annarra ráða til að bæta heilsugæsluþjónustuna. Hvað ætlar ráðherra að gera í heimilis- og heilsugæslulæknaskortinum? Hann er einn stærsti vandinn. Ungir læknar sækjast ekki eftir þessari sérgrein. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að breyta því? Margir heilsugæslulæknar eru að huga að því að hverfa að öðrum störfum og engin viðbrögð berast við tillögum ráðherrans. Þetta útboð leysir ekki þann stóra vanda sem heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu stendur frammi fyrir og mörgum spurningum er ósvarað.

Herra forseti. Því miður er verið að svelta heilsugæsluna til einkavæðingar.