Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:55:50 (5839)

2002-03-08 13:55:50# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Um hvað snýst það mál sem hér er til umræðu? Það snýst einfaldlega um að veita Kópavogsbúum þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á. Þá er rétt að minna á að ekkert bæjarfélag hefur vaxið jafnhratt og ört eins og Kópavogur á síðustu árum og þess vegna er mikilvægt og skylda hins opinbera að bregðast skjótt við til þess að veita grunnþjónustu í velferðarkerfinu. Það er einmitt það sem verið er að gera.

Hins vegar er ekki verið að breyta neinu í grundvallaratriðum um rekstur á heilbrigðiskerfinu. Það er einfaldlega verið að veita Kópavogsbúum glæsilega þjónustu. Það eru þau metnaðarfullu markmið sem hæstv. heilbrrh. hefur lýst hér.

Líka er rétt að minna á að hvergi eru þjónustusamningar jafnalgengir og á heilbrigðissviði. Þar nægir að nefna ýmis dvalarheimili fyrir eldri borgara, sérfræðinga á sjúkrahúsum, krabbameinsleit, heimahjúkrun og þannig mætti lengi áfram telja. Menn hafa einfaldlega notað ólík rekstrarform til þess að veita sem besta þjónustu fyrir almenning.

Það sem skiptir meginmáli og er grundavallaratriði hér, herra forseti, er að veita Kópavogsbúum góða grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu án þess að mismuna íbúunum eftir efnahag og án þess að slíkt form sé hinu opinbera dýrara en önnur form. Þetta er í rauninni grundvallaratriðið í heilbrigðismálum og ég treysti engum betur en hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni til að standa vörð um þá stefnu.