Útboð í heilbrigðisþjónustu

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 13:57:42 (5840)

2002-03-08 13:57:42# 127. lþ. 93.94 fundur 388#B útboð í heilbrigðisþjónustu# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[13:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það voru mikil vonbrigði þegar hæstv. heilbrrh. gaf það út að hann hygðist bjóða út eitt stykki nýja heilsugæslustöð. Hæstv. ráðherra hefur áður talað skynsamlega í þessum efnum og ekki tekið undir nýfrjálshyggju og gróðahyggjusjónarmið um aukinn einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, í kjarna heilbrigðiskerfisins. Hér er haldið inn á þá braut sem leiðir til og endar í mismunun þegnanna, meiri kostnaði, meiri heildarkostnaði fyrir hið opinbera og tvöföldu dýru kerfi. Sú reynsla blasir við hjá þeim þjóðum sem hafa farið inn á þessa braut.

Herra forseti. Einkarekstur í hagnaðarskyni sem velur sér verkefni, sendir reikninginn til ríkisins og skilur ríkið eftir með þau verkefni sem ekki er ábatasamt að sinna, er versta fyrirkomulagið sem hægt er að hafa í þessum efnum. Heilsugæslan sem fyrsta og mikilvægasta þrepið í heilbrigðisþjónustu landsins, er afar mikilvæg og hana ber að efla. Það er leiðsögn þeirra þjóða sem eru að reyna að halda aftur af og utan um útgjöldin í heilbrigðiskerfinu, þ.e. að efla grunnheilsugæsluna og reyna að leysa sem flest viðfangsefni þar. Ég er sannfærður um að það verður best gert með skipulögðu kerfi öflugra heilsugæslustöðva þar sem öll grunnheilsugæslan, eftirlitið, sóttvarnirnar, mæðra- og ungbarnaeftirlit o.s.frv., er á einni hendi. Ég fullyrði að ástandið er til fyrirmyndar á t.d. svæði einnar stærstu heilbrigðisstöðvar landsins, þ.e. á Akureyri þar sem upp undir 20.000 manns, bæði á Akureyri og í Eyjafirði, njóta allrar þessarar þjónustu á einum stað. Það er ódýrt, skilvirkt og skilar góðum árangri og mikil ánægja er með þá þjónustu meðal íbúanna. Hvers vegna þá að hverfa frá fyrirkomulagi sem þannig hefur sýnt gildi sitt? Gallinn er að þessa uppbyggingu skortir á höfuðborgarsvæðinu. Þá á ekki að fara úr öskunni í eldinn heldur ljúka því verkefni að byggja hér upp skilvirkt heilsugæslukerfi fyrir alla íbúa þessa svæðis.