Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Föstudaginn 08. mars 2002, kl. 16:19:57 (5863)

2002-03-08 16:19:57# 127. lþ. 93.13 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 127. lþ.

[16:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er afar eðlilegt að tala um Landssímann því ein rökin fyrir fyrir þessu frv. sem eru á bls. 5 og ég las upp gefa tilefni til þess. Ég get endurtekið þau fyrir hæstv. ráðherra:

,,Verður í þessu sambandi að hafa í huga að hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt.``

Ja, það hefur aldeilis verið þrautreynt á síðustu vikum. Því er svo sem eðlilegt að þar sé leitað fordæmis.

Ég vil leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. ráðherra að ég hafi verið að leggja til að fjmrh. færi með hlutabréfið. Það er mesti misskilningur. Ég vitnaði aðeins í orð hæstv. samgrh. hér á Alþingi og var þá að velta þessu fyrir mér í sambandi við það að hæstv. samgrh. sagði að til greina kæmi að fjmrh. færi með hlutabréfið í Símanum og hefur hann sjálfsagt verið þar brenndur mjög þegar hann sagði þessi orð.

Þá velti ég fyrir mér, og vil inna hæstv. iðnrh. eftir því, hvort umræða hafi verið tekin upp í ríkisstjórn um hver eigi að fara með hlutabréfið í Rafmagnsveitum ríkisins ef þetta frv. verður samþykkt. En ég vona, virðulegi forseti, að þessi spurning þurfi ekki að koma til, því frv. verði aldrei samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég vil enn fremur spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hvergi séu tíundaðar þjónustuskyldur í þessu frv., en arðsemiskrafan er hvað eftir annað tíunduð.