Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:07:19 (5866)

2002-03-11 15:07:19# 127. lþ. 94.1 fundur 390#B þjóðgarður norðan Vatnajökuls# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Við höfum rætt í þinginu nokkrum sinnum tillögu um virkjun við Kárahnjúka. Nú er sú tillaga komin á lokaafgreiðslustig í þinginu. Ljóst er að um þessa tillögu hafa staðið deilur. Engum dylst að hún gengur með nokkrum hætti á náttúruna en þeir eru margir sem telja hins vegar að ávinningurinn sem af henni hlýst vegi upp þær skemmdir sem af þessu verður. Hitt er þó líka ljóst, herra forseti, að norðan Vatnajökuls eru margar ómetanlegar náttúruperlur. Ég nefni Nýjadal, Kverkfjöll, Krepputungu, Vestur-Öræfi, Eyjabakka, Lónsöræfi og þó gæti ég nefnt fjölmörg til viðbótar.

Verði af virkjun eru ákaflega margir sem bera kvíðboga fyrir því að ekki verði látið staðar numið við Kárahnjúka heldur muni gengið áfram á þessi fögru og dýrmætu flæmi. Það er vissulega tilefni til, herra forseti. Í ýmsum opinberum gögnum, m.a. frá Orkustofnun og Landsvirkjun, er að finna áform og hugmyndir um frekari virkjanir sem gefa tilefni til þess að menn óttist. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að með einhverjum föstum og formlegum hætti verði slegið vernd á þessi svæði.

Ég hef talið, herra forseti, að heppilegasta leiðin til þess væri að leggja þessi ósnortnu flæmi norðan og norðaustan Vatnajökuls undir þjóðgarð, annaðhvort sérstakan þjóðgarð eða bæta þeim við hinn fyrirhugaða Vatnajökulsþjóðgarð. Ég tel að það mundi ekki aðeins tryggja vernd svæðisins heldur líka auka möguleika almennings á því að komast um þessi svæði og njóta þeirra. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. umhvrh. hvaða afstöðu hún hefur til hugmynda um þjóðgarð norðan og norðaustan Vatnajökuls.