Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:09:30 (5867)

2002-03-11 15:09:30# 127. lþ. 94.1 fundur 390#B þjóðgarður norðan Vatnajökuls# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Við höfum einmitt verið að huga að þessum málum. Ég hef kynnt í ríkisstjórn þær fyrirætlanir að setja upp nefnd til að skoða alla hugsanlega möguleika í þessu sambandi. En möguleikarnir eru nokkrir. Það er hægt að stækka Vatnajökulsþjóðgarð sem er fyrirhugað að stofna. Reyndar vitum við ekki nákvæmlega hvort okkur tekst að stofna hann núna í ár vegna þess að bændur í Höfn í Hornafirði hafa gert tilkall til hluta af jöklinum, en það er hægt að stækka Vatnajökulsþjóðgarð. Einnig er hægt að stofna sérþjóðgarð norðan Vatnajökuls eða að hugsa sér einhvers konar aðra verndun.

Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur einmitt rætt þessi mál opinberlega áður í blaðagreinum og hér á þinginu og tekið sérstaklega fram að verði stofnaður þjóðgarður á þessu svæði, þá verði um stærsta ósnortna víðerni í Evrópu að ræða þrátt fyrir virkjun og það er alveg rétt.

Nú er það þannig að þjóðgarðar hjá okkur flokkast undir flokkun 2 hjá Alþjóðanáttúruverndarsamtökunum. Ef af virkjun verður þá er hægt að stofna þjóðgarð á öllu þessu svæði. Þá yrði blönduð flokkun á því svæði, þ.e. flokkun 2, en virkjunin yrði í minni flokki. En það er líka hægt að hugsa sér þjóðgarð í flokki 2 þar sem sneitt er hjá virkjunarsvæðinu verði af virkjun. Ég er því opin fyrir öllum þessum möguleikum en við ætlum að skoða möguleikana betur. Ég tel ekki rétt að rasa um ráð fram í þessu. Það þarf að skoða alla þessa möguleika í einhvers konar nefndarstarfi og við erum einmitt að huga að því um þessar mundir hvernig slíkt starf gæti farið fram og á hvaða tíma nefndin gæti unnið.