Þjóðgarður norðan Vatnajökuls

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:11:25 (5868)

2002-03-11 15:11:25# 127. lþ. 94.1 fundur 390#B þjóðgarður norðan Vatnajökuls# (óundirbúin fsp.), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek það svo að hæstv. ráðherra a.m.k. fyrir hönd ráðuneytis síns og þá síns flokks sé þeirrar skoðunar að það sé sterkur möguleiki að þarna verði gerður þjóðgarður um þessi mikilvægu svæði. Ég tel að það yrði ákaflega farsælt, herra forseti, og ég er líka sammála þeirri skoðun hennar að það mundi falla undir skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarráðsins á þjóðgarði, hvort sem af virkjun yrði eða ekki.

Ég tel hins vegar nauðsynlegt, herra forseti, að afstaða ríkisstjórnarinnar í þessum efnum komi skýrar fram. Það hafa staðið mjög harðar deilur um þessa framkvæmd. Ég er þeirrar skoðunar að ef ríkisstjórnin mundi lýsa því yfir að hún hygðist leggja öll þessi svæði eða einhver þeirra undir þjóðgarð, þá gæti það með vissum hætti verið leið til sátta um þetta mál. Það er a.m.k. alveg ljóst að margir í mínum flokki mundu líta svo á og ég verð var við það að sú skoðun á sér hljómgrunn í samfélaginu.

Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, að tryggja ætti að heimamenn hefðu yfirráð yfir slíkum þjóðgarði og færu með stjórn hans og vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í því skyni ef af stofnun þjóðgarðs verður.