Landverðir

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:25:33 (5878)

2002-03-11 15:25:33# 127. lþ. 94.1 fundur 392#B landverðir# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nú liggur fyrir að Náttúruvernd ríkisins ætlar að draga úr landvörslu á hálendinu og það hefur komið fram að líklega muni verða dregið úr og jafnvel lagðar niður stöður landvarða á Lónsöræfum, friðlandi að Fjallabaki, og í Öskju og í Vatnsfirði, a.m.k. að mati Landvarðafélagsins. Þetta eru nokkuð nýjar fréttir fyrir alþingismenn því þegar verið var að ræða fjárlög í vetur, þá lá ekkert fyrir um að svona þyrfti að fara. Ég tel því ástæðu til að gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að svara því hér í sölum Alþingis hvort hæstv. ráðherra hafi vitað að svona mundi fara miðað við þau fjárframlög sem lágu fyrir í vetur og hvort það sé í samráði við hæstv. ráðherra eða hvort hún ætli að beita sér fyrir því að hægt verði að halda þessari starfsemi áfram eins og verið hefur undanfarin ár og jafnvel að auka hana eins og orð hafa verið uppi um og áskoranir reyndar erlendis frá líka um að gert verði.

Það er full ástæða til að hæstv. ráðherra upplýsi þetta í sölum Alþingis eftir þá umræðu sem hefur verið að undanförnu um þessi málefni.