Landverðir

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:27:06 (5879)

2002-03-11 15:27:06# 127. lþ. 94.1 fundur 392#B landverðir# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég heyrði að þingmönnum var brugðið við þessar fréttir og mér sjálfri var líka brugðið. Við fengum til okkar rekstraráætlun Náttúruverndar ríkisins og þeir vildu fá viðbrögð okkar við henni þar sem fram kom að þeir ætluðu að draga úr landvörslunni. Það er alveg ljóst að ég mun ekki samþykkja það. Það er ekki í anda þeirrar stefnumörkunar sem við höfum haft að draga úr landvörslu.

Landvarslan er mjög mikilvæg og það ber ekki að draga úr henni. Við höfum svarað Náttúruvernd ríkisins því til að þeir verði að finna aðrar leiðir varðandi rekstur sinn en að draga úr landvörslunni. Náttúruvernd ríkisins veltir um 140 millj. kr. á ári., landvarslan er eitthvað um 10 millj. af því. Við fengum rekstraráætlunina inn núna fyrir viku og höfum verið að fara yfir hana síðan. Það er alveg ljóst að við munum ekki samþykkja það að draga úr landvörslunni. Ég hef ekki hug á því. Reyndar höfum við verið að auka hana ef eitthvað er.

Við höfum nýlega stofnað þjóðgarðinn Snæfellsjökul sem hv. þm. kannast ágætlega við, enda aðstoðaði hann við það mál eins og aðrir þingmenn Vesturlands. Þannig að við höfum verið að ráða inn þjóðgarðsvörð sem m.a. á að passa upp á náttúruna og þar er einnig landvarsla. Mitt svar er því það að ég vil ekki hagræða þannig að landvarsla verði skert. Ég vil alls ekki skerða landvörsluna. Menn verða að finna aðra leiðir, t.d. að hagræða á skrifstofunni í Reykjavík ef þeir telja sig ekki geta lifað við óbreytt ástand. Landvarslan er mikilvæg og hún snýr að fólkinu, hún er þjónusta við fólkið sem fer um landið og ferðamannastraumurinn er að aukast þannig að við drögum ekki úr landvörslunni.