Samkeppnislög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 18:42:46 (5933)

2002-03-11 18:42:46# 127. lþ. 94.11 fundur 596. mál: #A samkeppnislög# (EES-reglur, ríkisaðstoð) frv. 54/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skal út af fyrir sig ekki hafa mörg orð um það frv. til laga sem hér er til umræðu um breytingu á samkeppnislögum. Ég fæ þetta mál til meðferðar í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti.

Það eru nokkur atriði sem vekja athygli og þarf að skoða í nefndinni. Með frv. er verið að leggja til að aðlaga ákveðinn kafla samkeppnislaga að reglugerð ráðsins, þ.e. um ítarlegar reglur um beitingu EB-sáttmálans, og þar er verið að tala um að EES-samningurinn kveði á um að ,,stöðugt skuli fylgjast með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr. EES-samningsins``.

Það vekur auðvitað athygli í 3. gr. að lagt er til að fjmrh. verði í stað viðskrh. heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi, og hér er verið að breyta samkeppnislögunum sem heyra undir viðskrh. en fjmrh. flytur þetta mál.

Ég hefði gjarnan viljað, eins og mér fannst koma fram í máli síðasta ræðumanns líka, að gerð yrði nánari grein fyrir í hvaða tilvikum væri um að ræða þessa ólögmætu ríkisaðstoð sem frv. kveður á um og er lagt fram í þeim tilgangi að innleiða reglur Evrópusambandsins sem kveða á um endurgreiðslu ólögmætrar ríkisaðstoðar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þannig að þingmenn gætu betur gert sér grein fyrir í hvaða tilvikum hér gæti komið til slíkrar endurgreiðslu á ólögmætri ríkisaðstoð. Maður hefði haldið að öll sú niðurgreiðsla og ríkisaðstoð sem fyrir hendi er í landbúnaði og sjávarútvegi, svo dæmi sé nefnt, sé eitthvað sem menn hafi farið yfir við gerð EES-samningsins, þannig að það gæti varla flokkast undir ólögmæta ríkisaðstoð og því þarf að skilgreina betur og lista upp í hvaða tilvikum gæti verið um endurgreiðslu á ólögmætri ríkisaðstoð að ræða.

Það er líka nokkuð athyglisvert í 2. gr. að það er Eftirlitsstofnun EFTA sem ákveður vaxtatöku af slíkri ólögmætri ríkisaðstoð og nokkuð furðulegt að það skuli vera með þeim hætti.

Það eru því nokkur atriði, herra forseti, sem efh.- og viðskn. þarf að fara í við skoðun á þessu máli og hefði farið betur á því, herra forseti, að hér hefði legið skýrar fyrir, annaðhvort í athugasemd með frv. sjálfu eða í framsöguræðu hæstv. ráðherra, sem þurfti að hverfa á braut, í hvaða tilvikum hugsanlega gæti komið til endurgreiðslna á ólögmætri ríkisaðstoð samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eins og frv. kveður á um.

Herra forseti. Vonandi skýrist þetta í efh.- og viðskn. áður en málið kemur aftur til 2. umr. þannig að þingmenn geti glöggvað sig betur á því en hér er hægt við þessa umræðu til hvaða tilvika ákvæði þessa frv. geti náð.