Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:19:59 (6022)

2002-03-12 14:19:59# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það er segin saga að í hvert sinn sem málefni heilbrigðisþjónustunnar koma til umræðu, þá er það á neikvæðum nótum. Heldur lítið fer fyrir því jákvæða og merka starfi sem þar fer fram, bæði innan og utan sjúkrahúsa. Oftast eru það fjármálin sem komast í hámæli og er þá einkum rætt um að kostnaður fari fram úr hófi. Þó hefur með gríðarlegu aðhaldi tekist að halda kostnaði við íslenska heilbrigðiskerfið undir 8% af vergri þjóðarframleiðslu.

Talið er að kostnaður vestrænna sjúkrahúsa aukist um 2--4% á ári en þar fyrir utan má nefna að ný lyf hækka lyfjakostnað um 12% á ári hér sem annars staðar. Reikna þarf inn í kostnaðardæmið hvað sparast á móti því ný lyf og aðrar nýjungar geta stytt legutíma, dregið úr vanlíðan sjúklinga og komið þeim fyrr til vinnu á ný. Legutími hefur verið að styttast og hefur leguplássum fyrir bráðveika á lyflæknis- og skurðdeildum fækkað um meira en helming á síðustu tíu árum.

Herra forseti. Til þeirra ráða var gripið í tíð síðasta heilbrrh. að sameina skyldi stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. Stór hluti húsnæðis spítalanna er sniðinn að öðrum þörfum en þeim sem nú eru og er talið að um 16 þús. fermetra vanti til að uppfylla norræna staðla. Sameining spítalanna hefur fengið misjafnar undirtektir. Ávallt lá þó fyrir að vissar hremmingar mundu fylgja því að flytja til starfsemi milli spítala og er núverandi ástand lýsandi dæmi um það sem sjá mátti fyrir þótt yfirlagnir hafi lengi þekkst og sé ekki ný bóla. Álag á starfsfólk hefur verið langvarandi og veldur því að fólk verður þreytt og kulnar í starfi og hafa tveir læknar á Landspítala nýlega lýst aðbúnaði sjúklinga og starfsfólks og er sú lýsing einkar hryggileg.

Herra forseti. Á skal að ósi stemma. Það er í mínum huga ljóst sem aldrei fyrr hve miklu skiptir að leyst sé úr heilsufarsvanda á viðeigandi stað og hlutverk þess þáttar sé skilgreint út frá faglegum forsendum. Heilsugæslan mun þá sinna þeim verkefnum sem henni tilheyra faglega séð. Sérfræðingar á stofum og göngudeildum taka við því sem fellur undir sérgreinar þeirra og sjúkrahús einungis því sem eftir er. Allar þær breytingar sem unnið er að stefna í rétta átt.